Spilað með lífeyri

Greinar

Kominn er tími til, að Alþingi þrengi svigrúm lífeyrissjóða til að spila með peninga, sem eiga fremur að veita sjóðfélögum áhyggjulaust ævikvöld heldur en að gefa sjóðstjórum tækifæri til að gera sig breiða í fjármálaheiminum, því að til þess hafa þeir enga burði.

Dæmi sýna, að sjóðstjórar hafa stundum hætt sér út á of hálan ís. Frægast var, þegar stórir lífeyrissjóðir seldu hlutabréf í banka, af því að sjóðstjórnarmaður fékk ekki stjórnarsæti í bankanum. Í kjölfarið hækkuðu hlutabréf í bankanum og sjóðfélagar töpuðu töluverðu fé.

Persónulegur metnaður má ekki stjórna fjárfestingum lífeyrissjóða. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum verka- og verzlunarfólks eiga ekki að geta notað aðstöðu sína til að kaupa sér stóla til að spila fína menn í stjórnum fyrirtækja, sem lífeyrissjóðirnir eiga hlutabréf í.

Alvarlegasta dæmið er aðild sjóðstjóra verzlunarfólks að vonlausu fjármáladæmi undirbúningsfélags álvers á Reyðarfirði. Allir nema sjóðstjórar og nokkrir starfsmenn Landsvirkjunar vissu, að fyrirhugað álver lífeyrissjóða gæti ekki staðið undir sér án niðurgreiddrar orku.

Norsk Hydro hafði fyrst og fremst áhuga á álverinu sem milliliður, ætlaði að selja því hráefnið og kaupa af því afurðirnar. Norska fyrirtækið ætlaði að ginna íslenzka lífeyrissjóði til að bera hitann og þungann af sjálfri áhættunni við rekstur fjárhagslega vonlauss álvers.

Í sjávarplássum landsins þekkjum við dæmi þess, að lífeyrissjóðir hafa verið misnotaðir til vanhugsaðra tilrauna til að blása lífi í dauðvona fyrirtæki. Það hefur leitt til þess, að fólk, sem missti atvinnuna og tapaði hlutafé, glataði líka hluta af uppsöfnuðum rétti til lífeyris.

Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að styðja staðbundin fyrirtæki, ekki frekar en það er hlutverk þeirra að fjármagna íbúðir sjóðfélaga. En sjóðstjórum hefur reynzt erfitt að átta sig á, að áhætta er utan við verksvið sjóða, sem stofnaðir eru til að varðveita lífeyri fólks.

Ríkið hefur fyrir hönd ríkissjóðs mikilla hagsmuna að gæta. Ef lífeyrissjóðakerfið gengur ekki upp og sumir lífeyrissjóðir geta ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna óráðsíu sjóðstjóra, verður ríkisvaldið beitt þrýstingi til að hlaupa fjárhagslega undir bagga.

Af fenginni reynslu er tímabært, að Alþingi taki tillit til þeirra dæma, sem rakin hafa verið hér að ofan, og setji sjóðstjórum þrengri skorður við spilamennsku með ævikvöld sjóðfélaga. Reglurnar þurfa að vera svo traustar, að ríkissjóður þurfi ekki að gyrða upp um sjóðstjóra.

Þrengri reglur mega þó ekki draga úr möguleikum lífeyrissjóða á að dreifa áhættunni með því að festa hluta af peningum sínum í útlöndum. Slík dreifing áhættunnar kemur að gagni, ef verr gengur á Íslandi en í öðrum löndum, enda reynir þá meira á lífeyrissjóði en ella.

Reglur um fjárfestingu lífeyrissjóða erlendis ættu að þjóna sama hlutverki og reglur um fjárfestingu þeirra innanlands, takmarka svigrúm sjóðstjóra til að taka óþarflega mikla áhættu og takmarka svigrúm þeirra til að misnota aðstöðuna til að spila fína menn úti í bæ.

Ekki má reka lífeyrissjóði með sama hugarfari og aðrar fjármálastofnanir. Miða verður við tilgang sjóðanna. Þess vegna verður öryggi að vera í fyrsta, öðru og þriðja sæti. Lífeyrissjóðir mega ekki láta hleypa sér út í kapphlaup um sem mesta ávöxtun á sem stytztum tíma.

Reynslan sýnir, að sjóðstjórnir og sjóðstjórar hafa ekki burði til að taka einir ábyrgð á þessu án aðstoðar laga, sem þrengi svigrúm þeirra til að spila með lífeyri.

Jónas Kristjánsson

DV