Spilað með lífeyrinn

Greinar

Lífeyrissjóðir landsmanna hafa ekki staðið sig nógu vel í sviptingum efnahagsmála á þessu ári og hinu síðasta. Verðgildi þeirra rýrnaði í fyrra og mun rýrna enn meira á þessu ári, sumpart vegna erfiðs árferðis á hlutabréfamarkaði og sumpart vegna rangra ákvarðana.

Forstjóri Fjármálaeftirlits ríkisins segir nokkuð skorta á, að ráðamenn lífeyrissjóða hafi svipað aðhald og ráðamenn fyrirtækja almennt hafa af eigendum þeirra. Raunar er augljóst, að ekki er boðið upp á mikil afskipti fólks af rekstri lífeyrissjóða, sem það á aðild að.

Þetta er ekki einhlít skýring, enda má benda á, að enn verr hefur gengið hjá ýmsum lífeyrissjóðum, sem eru ávaxtaðir af fjármálastofnunum. Slíkir sjóðir hafa raunar gengið lengra en aðrir sjóðir í glannalegum kaupum á hlutabréfum, sem síðan hafa fallið í verði.

Gróft dæmi um glannalegan sjóð er Lífeyrissjóður Austurlands, sem hafði í fyrra 4,3% neikvæða raunávöxtun undir stjórn sérfræðinga í Kaupþingi, sem hafa hagað málum á þann veg, að 30% af öllum eigum sjóðsins eru í pappírum, sem ekki eru skráðir á verðbréfaþingi.

Alvarlegt er að haga þannig rekstri lífeyrissjóða. Þeir eiga alls ekki að vera áhættufjárfestar og því síður að stunda fjárhættuspil á hlutabréfum. Hlutverk þeirra er að standa undir eftirlaunum fólks með fjárfestingu í traustum skuldabréfum með hægfara ávöxtun.

Til skjalanna hafa komið svokallaðir verðbréfaguttar, sem hafa ginnt ráðamenn lífeyrissjóða til að víkja frá hefðbundnum sjónarmiðum við ávöxtun sjóðanna í von um skjótfenginn gróða í hlutabréfum kraftaverka. Slíkar vonir hafa yfirleitt brugðist, stundum hrapallega.

Þar sem lífeyrir almennings er í húfi, er nauðsynlegt að setja lífeyrissjóðum strangari reglur, jafnt séreignasjóðum sem sameignasjóðum. Nú mega sjóðir til dæmis eiga helming peninga sinna í hlutabréfum, sem er greinilega allt of hátt hlutfall. Fjórðungur væri betra hámark.

Stjórnir og verðbréfaguttar lífeyrissjóða liggja undir þrýstingi ýmissa aðila, sem eru með pottþétt gróðaplön á prjónunum og líta á lífeyrissjóði sem ríka frændann. Vel borguðum sætum í stjórnum kraftaverkafyrirtækja er veifað framan í þá, sem eiga að opna gullkisturnar.

Dæmi eru um, að lífeyrissjóðir festi beinlínis fé í stjórnarsætum fyrir ráðamenn sína og reikni framlög sín í slíkum sætum. Þetta felur í sér þvílíkan hagsmunaárekstur, að hreinlega þarf að banna ráðamönnum lífeyrissjóða setu í stjórn fyrirtækja með eignaraðild sjóðanna.

Setja þarf strangari reglur um fleiri þætti í rekstri sameignarsjóða og séreignarsjóða. Draga þarf úr líkum á, að verðbréfaguttar leiki lausum hala í hlutverki ráðgjafa eða umsjónarmanna. Lögfesta þarf strangari form um aðkomu sjóðfélaga að rekstri lífeyrissjóða sinna.

Upplýsingaskylda sjóðanna þarf að vera örari og gegnsærri en nú er, svo að erfiðara sé að draga fjöður yfir vandann. Skipun stjórna sjóðanna þarf að lúta strangari lýðræðisformum en nú er. Hvort tveggja miðar að aukinni tilfinningu sjóðfélaga fyrir eignarhaldi sínu.

Lífeyrissjóðir eru einn helzti hornsteinn íslenzka velferðarkerfisins. Þegar ávöxtun þeirra fylgir ekki hægfara hagvexti Vesturlanda og þegar þeir eru jafnvel farnir að tapa fé ár eftir ár, er greinilega brýnt að taka til hendinni á þann hátt, sem lýst er hér að ofan.

Reynslan sýnir, að löggjafarvaldið neyðist til að þrengja svigrúm stjórna og ráðgjafa lífeyrissjóða til að víkja af þröngum vegi ráðdeildar með peninga almennings.

Jónas Kristjánsson

DV