Spilling kjósenda

Greinar

Prófkjör Framsóknarflokksins á Norðurlandi vestra og Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi sýna, að margir kjósendur eru farnir að taka þátt í kosningaundirbúningi annarra flokka en þess, sem þeir hyggjast styðja í kosningunum. Þessi spillti kjósendahópur fer stækkandi.

Þegar þátttaka í prófkjöri er orðin meiri en sem nemur mestu fylgi flokksins í kjördæminu og flokkurinn er ekki í neinni sérstakri uppsveiflu að mati skoðanakannana, er greinilega maðkur í mysunni. Stuðningsmenn annarra flokka eru farnir að ráða framboði flokksins.

Fyrir svo sem einum áratug eða tveimur bar ekki mikið á þessu. Þá þótti ekki við hæfi, að fólk gengi milli flokka í prófkjörum. Aðeins hörðustu og spilltustu kjósendurnir létu hafa sig út í slíkt. En núna þykir það sjálfsagður hlutur, sem áður þótti vera siðferðisbrestur.

Helzti hvati þessarar tegundar spillingar er áhugi kjósenda í ákveðnum hluta kjördæmis á því, að frambjóðendur sem flestra stjórnmálaflokka komi frá þeim hluta og muni gæta hagsmuna hans umfram aðra hluta kjördæmisins. Prófkjörin breytast í slag milli landssvæða.

Spilling kjósenda hefur gengið svo langt á þessu sviði, að á Suðurnesjum er talað um það sem sjálfsagðan hlut, að Suðurnesjamenn verði að taka þátt í prófkjörum allra flokka til að tryggja sem bezt aðstöðu Suðurnesja við kjötkatla stjórnmálanna í samkeppni við önnur svæði.

Þetta hlýtur að enda með, að litlir flokkar og miðlungsflokkar geta ekki lengur látið prófkjör ráða framboði. Það er slæmt, því að prófkjör voru á sínum tíma ágætis leið til að efla lýðræði, hrista upp í stöðnuðu flokkskerfi og til að virkja fólk til þátttöku í pólitísku starfi.

Leiðin til bjargar prófkjörum er einföld. Hún er vel þekkt erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig verið reynd hér og með góðum árangri, einkum fyrir byggðakosningarnar 1982. Hún felst í sameiginlegu prófkjöri flokkanna, svokölluðum forkosningum.

Í forkosningum er sameiginlegur kjördagur og sameiginlegir kjörstaðir fyrir alla stjórnmálaflokka, sem vilja vera með. Kjósendur geta valið sér einn flokk í prófkjörinu og velja þá væntanlega þann flokk, sem næst stendur þeim. Þeir tíma varla að eyða atkvæðinu í aðra flokka.

Forkosningar koma í veg fyrir, að spilltir kjósendur geti misnotað atkvæði sitt til að kjósa Hafnfirðinga eða Kópavogsmenn allra flokka, Sauðkrækinga eða Siglfirðinga allra flokka. Þeir hafa hver um sig bara eitt atkvæði og geta ekki margfaldað það í staðarhagsmunapoti.

Forkosningar leysa ekki öll vandamál prófkjöra. Eftir stendur, að víða liggja flokkar í sárum, sem gróa seint og illa, vegna of harðrar baráttu milli einstakra frambjóðenda í prófkjöri. Innanflokksátök milli manna í prófkjöri leiða til dæmis stundum til klofningsframboða.

Þennan vanda er líka hægt að leysa, svo sem sums staðar hefur verið gert erlendis. Það er gert með því að hafa óraðaða lista í kosningunum. Þannig flytjast prófkjörin og forkosningarnar inn í sjálfar kosningarnar. Þetta hefur nokkrum sinnum verið rætt hér á landi.

Persónuáróður einstakra frambjóðenda innan lista yrði innan ramma kosningabaráttu flokksins. Ólíklegt er, að mikið yrði um neikvæðan áróður, sem skaðaði þá, sem honum beittu. Og frambjóðendur hefðu ekki svigrúm til að fara í fýlu milli prófkjörs og kosninga.

Þar sem kjósendur eru í þann veginn að gera prófkjör óhæf til síns brúks, er orðið tímabært í staðinn að taka annað hvort upp forkosningar eða óraðaða lista.

Jónas Kristjánsson

DV