Spillt umburðarlyndi

Greinar

Spillt umburðarlyndi er útbreiddara á Íslandi en hjá þjóðum, þar sem kerfið varð til í átökum stétta. Hér tóku borgarar ekki völd af aðli, heldur varð hér átakalaus færsla valds frá erlendum embættismönnum yfir til innlendra. Þess vegna fóru ýmis baráttumál frelsis og lýðræðis fram hjá okkur.

Við höfum því minni efasemdir um valdið en algengt er hjá öðrum auðþjóðum. Við höfum tilhneigingu til að telja, að kerfið sé gott, vilji öllum vel og viti, hvað sé okkur fyrir beztu. Við tökum því af umburðarlyndi, þótt yfirvaldið fari á skjön við það, sem við teljum sjálf vera heppilegast.

Við gerum til dæmis aldrei uppreisn. Við förum ekki í strætó einn dag á árinu til að mótmæla háu benzínverði. Við neitum ekki að kaupa innlenda búvöru í heilan mánuð til að rísa upp gegn þeim umframkostnaði, sem greinir okkur mest frá öðrum þjóðum. Við látum andbyr yfir okkur ganga, við erum þrælar.

Myndir hins spillta umburðarlyndis eru margar fleiri. Því er haldið fram, að bókmenntagagnrýnendur eigi ekki að skamma upprennandi rithöfunda fyrir léleg verk. Þeir eigi þvert á móti að líta jákvæðum augum á málið og gefa höfundunum næði til að þroskast. Þetta er umburðarlyndi gagnvart getuleysi.

Við erum alltaf að afsaka aðra. “Hann var fullur, greyið” segjum við, ef einhver stofnar lífi fjölmargra í hættu með ölvunarakstri, “konan er víst vond við hann”. Við teljum líka, að það sé leyndó, að maður hafi verið dæmdur fyrir nauðgun. Fjölmiðlar eiga ekki að dæma fólk, segir fólk.

Ekkert eitt atriði er eins mikill þröskuldur á vegi okkar til þroskaðs lýðræðisþjóðfélags eins og einmitt allt þetta spillta umburðarlyndi. Við hættum að gera kröfur, kröfur til stjórnmálamanna, embættismanna, samferðamanna. Við sættum okkur við almennt getuleysi valdamanna í þjóðfélaginu.

Hálf þjóðin hefur spillt umburðarlyndi að hornsteini í lífinu. Við finnum það á DV, þegar við erum að hamast gegn aumingjum í stétt stjórnmálamanna og embættismanna. Við finnum það, þegar við segjum frá nöfnum vandræðamanna og birtum myndir af þeim. “Var það nauðsynlegt”, spyrja menn.

DV er sagt “valda sársauka” og hugsa ekki út í, hvort frétt “varði almannaheill”. Okkur er sagt, að “oft megi satt kyrrt liggja”. En hér á DV höfnum við þessu spillta umburðarlyndi.

DV