Þegar sjónvarpsstöð í New York sagði frá árekstrarhættu milli franskrar og íslenzkrar þotu á Kennedy-flugvelli, spilaði stöðin samtöl flugturns og flugstjóra. Í þessum samtölum kom fram, að Frakkarnir skildu ekki ensku og misskildu skipun flugturnsins, keyrðu þotu sína í veg fyrir þá íslenzku. Ef þetta hefði gerzt á Íslandi hefðu blýantsnagarar kerfisins aldrei leyft sjónvarpsstöð að spila upptökur. Slíkt hefði verið talið “spilla fyrir rannsókn málsins”. Það orðalag er samheiti yfir tregðu kerfisins að gefa upplýsingar í ágreiningsefnum. “Leyndó” er einkunnarorð íslenzka ríkisins.