Þegar stóru skemmtiferðaskipin voru hér um daginn, mátti sjá gamlingjana þeysa um gangstéttir á rafskutlum. Herramaður með snjallsíma og vindil sat keikur í einni slíkri og vantaði bara viskíglasið. Vélvirkið tók næstum ekkert pláss. Svo kom frú ein í rafknúnum Lazy Boy með hallanlegu baki. Það var glæsilegt að sjá. Svona heillatæki þurfa að koma í búðir, rafknúnir letistólar til að skeiða um miðbæinn. Kannski ætti ég bara að fá mér rafknúið og stillanlegt sjúkrarúm til að þeysa milli kaffihúsa. Það mundi spara húsakost í miðbænum og kannski spara pláss á spítalanum. Framtíðin er að taka við okkur, björt og fögur eins og veðrið sjálft.