Sprengjufiðrildi fyrir börn.

Greinar

Vesturþýzki stjórnmálamaðurinn Jürgen Todenhöfer var í vetur á ferð með skæruliðum í Afganistan. Hann sá þar nokkur hundruð börn, sem voru örkumla í andliti og á höndum af völdum leikfangasprengja. Hann áætlaði, að nokkrir tugir þúsunda barna hefðu sætt slíkum sendingum Rauða hersins.

Liður í hernaði Kremlverja í Afganistan felst í að dreifa sprengjum, sem líta út eins og fiðrildi og springa ekki, þegar þær koma til jarðar. Þær springa þá fyrst, er snert er á þeim. Friðarklerkar og friðarkerlingar af báðum kynjum á Vesturlöndum hamast ekki gegn þessu.

Reynum að gera okkur í hugarlund, að bandaríski herinn varpaði slíkum sprengjum á Nicaragua. Vestrænir fjölmiðlar væru án efa mættir á staðinn. Reiðialda færi um hinn siðaða heim, ekki sízt í Bandaríkjunum sjálfum. Slíkur hernaður er óhugsandi.

Reynum að ímynda okkur, að 125 þúsund manna bandarískur her væri búinn að vera í Nicaragua í rúmlega fimm ár. Heilu þorpunum, konum, börnum og gamalmennum væri slátrað á skipulegan hátt, húsin jöfnuð við jörðu og gróðri eytt. Slíkt gæti engan veginn gerzt nú.

Reynum að sjá fyrir okkur, að stjórn Bandaríkjanna ynni miskunnarlaust að eyðingu landsbyggðarinnar í Nicaragua og hefði þegar hrakið þrjár-fjórar milljónir manna úr landi. Slíkt væri ekki hægt, ekki vegna neinna friðarhreyfinga, heldur vegna venjulegs almenningsálits.

Kremlverjar hafa ekkert almenningsálit heima fyrir. Fjölmiðlar þeirra segja það eitt, sem þeir eru látnir segja. Fólk í Sovétríkjunum heldur, að drengirnir þess séu að verjast innrás Bandaríkjanna í Afganistan. Þannig fær þjóðarmorðið í Afganistan að halda áfram.

Rauði herinn og leppstjórnin í Kabúl sjá til þess, að erlendir fréttamenn geti ekki flykkzt til Afganistan að sjá grimmdaræðið þar og flytja það inn í stofu til vesturlandabúa. Við fáum því stopular fréttir frá blaðamönnum, sem hafa hætt lífi sínu við að laumast um landið.

Sovétstjórnin fyrirlítur mannúð og mannréttindi, alveg eins og hún fyrirlítur alla samninga, sem hún skrifar undir, þar á meðal Helsinki-samkomulagið. Valdataka valdshyggjumannsins Gorbatsjovs hefur magnað forherðinguna, þar á meðal villimennskuna í Afganistan.

Á sama tíma er friðarfólk á Vesturlöndum að biðja um fleiri marklausar undirskriftir, til dæmis um, að svæði verði kjarnorkuvopnalaus og að enginn verði fyrri til að grípa til kjarnorkuvopna. Slíkir pappírar verða þá fyrst endanlega marklausir, þegar Kremlverjar hafa ritað undir.

Friðarfólk á Vesturlöndum veldur Kremlverjum óstjórnlegri gleði, þegar það beitir vestrænar ríkisstjórnir þrýstingi, sem enginn getur beitt austan járntjalds, en lætur framferði Kremlverja afskiptalaust, til dæmis í Afganistan. Þetta er óþolandi ástand.

Tími er kominn til, að almenningur og friðarfólk, þar á meðal villuráfandi klerkar, hætti að einblína í garð Vesturlanda og einbeiti kröftum sínum að þrýstingi á Sovétstjórnina, svo að hún láti af glæpum sínum í Afganistan og öðrum svikum við alþjóðlega samninga.

Enginn friður verður á jörðinni fyrr en Kremlverjar sjá, að þeir komast ekki lengur upp með að haga sér eins og naut í flagi. Núverandi starf vestrænna friðarhreyfinga stuðlar að framhaldi ófriðar Kremlverja og frekari dreifingu á sprengjum handa börnum í Afganistan.

Jónas Kristjánsson.

DV