Blaðamenn, sem gerast spunakarlar, verða ekki samir menn aftur. Snúi þeir til baka, eru þeir áfram spunakarlar, ekki blaðamenn. Siðferðisgrunnur þeirra er orðinn annar. Þegar spunakarlar kjafta sig inn í stjórnunarstöður fjölmiðla, er voðinn vís. Það er einmitt að gerast hér á landi á nýhafinni öld. Jafnslæm er sú breyting, að blaðamenn verða frægðarfólk í sjónvarpi. Slíkar persónur geta ekki orðið blaðamenn að nýju. Það er einmitt orðið einkenni fjölmiðlanna, að völdin taka annars vegar spunafólk og hins vegar frægðarfólk. Slíkt magnar ógnir kranablaðamennsku og drottningarviðtala.