Spurningaþáttur í sjónvarpi

Hestar

Jónas R. Jónsson

Fyrst hafði ég ekki áhuga, þegar talað var við mig um að taka að mér spurningaþátt í sjónvarpi. Nokkrir ímyndarmenn, sem ég hafði samráð við, hvöttu mig þó til að íhuga málið betur, því að hlutverkið gæfi mér sem umboðsmanni tækifæri til að hafa aðgang að fjölmiðlum á annan hátt en beint á vegum hestamennskunnar.

Ég mundi kynnast fólki og það mundi kynnast mér. Ég yrði aðgengilegri í hugum fólks og það mundi nýtast störfum mínum á vegum hestamennskunnar, ekki sízt erlendis, þar sem víða þykir merkilegt eða athyglisvert að stjórna þessari vinsælu tegund sjónvarpsþátta.

Á þessum forsendum lagði ég málið fyrir stjórn embættisins, sem samþykkti það. Þáttarstjórnin tekur engan tíma frá mér. Ég kem ekki nálægt undirbúningi þáttanna og er bara við störf á sýningartímanum. Ég er því ekki að taka vinnutíma frá hlutverki mínu í þágu hestamennskunnar, heldur aðeins að skapa mér aukin færi á að koma málum hestamennskunnar á framfæri.

Á þessum fyrstu mánuðum í starfi mínu sem umboðsmaður hestsins hef ég einkum verið að kynnast fólki og hlusta á það, læra af reynslu þess. Fyrstu aðgerðir eru hafnar og beinast einkum að kerfisbundinni uppbyggingu sóknar á erlenda markaði, einkum á Bandaríkjamarkað og þjónustu við hann. Stjórn verkefnisins er samþykk þessari forgangsröðun.

Atvinnuleyfi í Bandaríkjunum

Eitt brýnasta málið er að fást við þann vanda, að íslenzkir reiðkennarar og tamningamenn eru á stöðugum ferðum til Bandaríkjanna án þess að hafa vegabréfsáritun til launaðara starfa. Þeir hafa bara ferðamannaáritun til þriggja eða sex mánaða og hafa sumir þegar lent í að vera vísað frá landinu við komuna á flugvelli, af því að tími vegabréfsáritunar var útrunninn.

Hætta er á, að sumum þessara manna verði vísað frá Bandaríkjunum til langs tíma af því að þér séu þar við launaða vinnu án þess að hafa til þess skilríki. Þeir hafi komizt inn í landið undir því yfirskyni, að þeir séu ferðamenn.

Ég hef sett í gang ferli, sem miðaðar að viðurkenningu innflytjendaskrifstofunnar í Bandaríkjunum á því, að íslenzki hesturinn þar í landi sé sérstæður, til dæmis vegna fimm mismunandi gangtegunda. Til skjalanna þurfi að koma íslenzkir reiðkennarar og tamningamenn með sérhæfða kunnáttu. Ákvæði eru um þetta í reglum um innflytjendur í Bandaríkjunum.
Við erum í sambandi við þrjár lögmannsstofur þar vestra, sem sérhæfa sig í málum innflytjenda. Ég hyggjst fyrir áramót velja eina þeirra til að taka að sér að benda á leið til ódýrara og einfaldara umsóknarferlis en verið hefur.

Þegar rétt umsóknarferli er fundið, geta starfsmenn utanríkisþjónustunnar stuðlað að almennri afgreiðslu málsins með samböndum sínum við hlutaðeigandi aðila í Bandaríkjunum.

Markmiðið er, að reiðkennarar og tamningamenn geti farið til Bandaríkjanna til starfa og verið þar langtímum saman á fullkomlega löglegan hátt án þess að eiga yfir höfði sér neinar refsiaðgerðir eða útskúfun. Fyrstu ágizkanir benda til, að viðurkenningarferlið kosti tæpar 200.000 krónur á mann hjá þeirri lögfræðistofu, sem tekur málið að sér.

Við verðum svo að horfast í augu við, að það getur tekið nokkur ár að koma málinu í gegn, af því að hryðjuverkaótti í Bandaríkjunum hefur gert allt slíkt ferli seinvirkara en áður var. Tilslakanir á ferðahömlum eru ekki lengur gerðar nema að mjög rækilega athuguðu máli.

Meira en hestasalan ein

Bandaríkjamarkaður er að ýmsu leyti erfiðari en hinir hefðbundnu markaðir íslenzka hestsins. Jafnframt eru flestir sammála um, að möguleikar á útþenslu séu mestir þar. Þess vegna hef ég tekið verkefni Bandaríkjamarkaðar fram fyrir verkefni á evrópskum mörkuðum, sem eru orðnir meira eða minna þróaðir.

Eitt helzta sérkenni bandaríska markaðarins eru miðaldra konur, sem vilja mjög þæga hesta, eru oft í töluverðum vandræðum með þá og þurfa á mikilli aðstoð að halda. Annað helzta sérkennið eru miklar fjarlægðir milli staðanna, þar sem íslenzk reiðmennska er kennd og íslenzkir hestar þjálfaðir.

Miklu máli skiptir, að upp rísi búgarðar eða aðrar miðstöðvar, þar sem Íslendingar sinni bústjórn, tamningum og reiðkennslu. Þannig myndast tengsl milli Íslands og kaupenda í Bandaríkjunum. Þannig myndast grunnur að þekkingu á sérstakri meðferð íslenzka hestsins. Þannig myndast festa í samskiptum og viðskiptum.

Bandaríkin eru markaður, þar sem salan er bara einn þáttur dæmisins. Flytja þarf hestana héðan til viðurkenndra Íslandshestabúgarða, þar sem þeir fá tíma til að jafna sig eftir ferðalagið og fá þjálfun af hálfu þekkingarfólks. Þegar hesturinn er tilbúinn, þarf að þjálfa væntanlegan eiganda til að ná tökum á hestinum.

Þetta eykur auðvitað kostnaðinn, en á ekki að hafa áhrif á söluverðið, heldur koma til viðbótar við það. Ég sé þetta fyrir mér sem hvetjandi kerfi, þar sem kaupendur sjái sér hag í að kaupa þjálfun, námskeið og aðra þjónustu ofan á hestverðið.

Ná þarf til háskóla

Mikilvægt er, að Bandaríkjamarkaðurinn nái til unga fólksins á svipaðan hátt og gerzt hefur í Evrópu. Koma þarf íslenzkum hestum í reiðklúbba og koma þar inn sértækri reiðkennslu fyrir íslenzka hestinn. Úr þessum reiðklúbbum kemur fólk, sem er reiðubúið að taka hestamennsku alvarlega og getur náð góðum tökum á íslenzka hestinum.

Fyrst þurfum við að koma Hólaskóla í samband við nokkra bandaríska háskóla, þar sem reiðmennska er kennd og flytja þannig þekkingu frá þekkingarfólki til þekkingarfólks. Ég sé fyrir mér, að kennarar frá Hólum fari milli þessara háskóla til að kenna hina sérstöku þætti íslenzkrar reiðmennsku. Á móti kæmu hingað kennarar og nemendur til þjálfunar.

Ef svo sem fimm bandarískir háskólar hefðu 500 nemenda reiðmennskudeildir og 2-3 íslenzka hesta hver, væri hægt að kveikja áhuga hjá sumum nemendum. Ef 2% fengju áhuga, eru það 50 manns á ári og 250 manns á 5 árum. Þetta mundi síðan hafa margfeldisáhrif út frá sér.

Þetta er forgangsmál hjá mér næst á eftir breyttum vegabréfsáritunum. Í vetur ætla ég að vinna að því að koma á samböndum við háskóla í Bandaríkjunum og selja þar hugmyndina um samstarf við íslenzka aðila. Að því loknu vil ég leggja fram drög að tillögu um, að Hólaskóli fái frá árinu 2005 fjárveitingu fyrir einum viðbótarkennara og ferðakostnaði í tengslum við samskiptin vestur um haf. Áhugi er fyrir þessu í ráðuneytinu, en berjast þarf fyrir því, að þetta mál komist inn í næsta fjárlagafrumvarp.

Losnum við sóttkvína

Afnám sóttkvíar í Bandaríkjunum er þriðja mál í forgangsröðinni. Sóttkví er núna þriggja daga fyrir hesta frá Íslandi og kostar 100.000 krónur. Við stöndum þar vel að vígi í samanburði við Þjóðverja, sem þurfa að hafa sína hesta í sóttkví í 30 daga. Við getum hins vegar fengið sóttkvína alveg fellda niður og þá um leið kostnaðinn, sem henni fylgir.

Það getum við, ef vísindamönnum á Keldum tekst að ákveða, hvaða veira af þremur mögulegum olli hrossasóttinni um árið. Fjármagn vantar til að ljúka þeim rannsóknum, sem gætu kostað 10 milljón krónur hið mesta. Við mundum ná þeim kostnaði til baka af sparnaði við sóttkví 100 hesta.

Embætti umboðsmannsins hefur sjálft ekkert fé til verkefna af þessu tagi, en reynir að stuðla að því, að fjármagn komi frá öðrum aðilum. Ég held, að það muni takast, þegar þekkingarleg samskipti í hestafræðum milli Íslands og Bandaríkjanna eru komin í traustan farveg.

Tökum af festu á exemi

Við þurfum að taka af festu á sumarexemi. Við þurfum að breiða út þá þekkingu, sem þegar er til um, hvernig fagmenn fara að því að halda því svo mikið í skefjum, að það verði ekki alvarlegt vandamál. Um þetta hafa komið ágætar greinar í alþjóðaútgáfu Eiðfaxa og verða vonandi fleiri. Annars vegar er um að ræða lyf og krem og hins vegar sérstakar aðstæður í húsakosti og nákvæmni í útivistartíma hrossa.

Jafnframt þarf að verja meiri fjármunum til rannsókna á Keldum með það fyrir augum að finna varanlega lausn á vandamálum exems. Meðan við bíðum eftir því, þurfum við að taka exemið mjög alvarlega og dreifa jafnóðum beztu fáanlegri þekkingu um meðferð þess.

Við erum að hefja undirbúning að gerð bæklings um meðferð íslenzka hestsins, þar sem meðal annars verður fjallað um exem. Þar eiga að vera öll helztu atriði, sem varða hófhirðu, ormalyf, fæðu og fleira, sem menn þurfa að vita, en hafa ekki greiðan aðgang að upplýsingum um. Stefnt er að því, að slíkur bæklingur fylgi öllum hestum, sem seldir eru til útlanda. Undirbúningur að gerð hans er þegar hafinn.

Upprunaland og knapamerki

Eitt af verkefnum umboðsmannsins er að vinna að alþjóðlegri staðfestingu á Íslandi sem upprunalandi íslenzka hestsins, svo að það fari ekki milli mála á alþjóðlegum vettvangi. Þetta virðist sjálfgefið hér á Íslandi, en því til viðbótar þurfum við að fullnægja ýmsum formsatriðum á erlendum vettvangi.

Knapamerkjakerfið, sem Hulda Gústafsdóttir vann fyrir Átaksverkefnið, er merkilegt framtak, sem stuðlar að kerfisbundinni þróun hestamennskunnar og útbreiðslu hennar í menntakerfinu, þar sem hestamennska verði gerð að valgrein. Ég er bjartsýnn á útvegun fjármagns til þess, ef raunhæfar áætlanir um ferlið verða gerðar. Mikilvægt er, að hestamannafélögin taki sem mest frumkvæði í málinu.

Vottun hesta og búgarða

Æskilegt er að koma upp einhvers konar óháð vottunarkerfi fyrir hesta og tamningu eins og tíðkast í ýmsum öðrum atvinnu- og útflutningsgreinum. Við getum hugsað okkur, að vottunarblað gæfi greinargóða mynd af hestinum og sagt hvers konar fólki hann gæti hentað. Slík vottun yrði til að efla traust og liðka fyrir sölu hesta bæði innanlands og utan.

Einnig er skynsamlegt að stefna að vottunarkerfi fyrir búgarða í útlöndum, þar sem unnið er markvisst eftir þeim markmiðum, sem við leggjum áherzlu á, svo sem góðum undirbúningi fyrir sölu hrossa og með góðri eftirfylgni, þar sem íslenzkir fagmenn koma að málum. Allt, sem stuðlar að trausti í hrossakaupum, leiðir til léttari sölu og aukinnar sölu. Þetta er hins vegar umdeilt mál og þarf töluverðan tíma til gerjunar, áður en tímabært er að setja fram áætlun um aðgerðir.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 9.tbl. 2003