Spyrja ekki smáfiskana

Greinar

Í fagnaðarlátunum út af samkomulagi um sameiningu fjögurra banka í einn hefur alls ekkert verið fjallað um áhrif hennar á viðskiptamenn bankanna. Er það í fullu samræmi við þá hefð að spyrja smáfiskana einskis, þegar hagsmunir stórhvelanna eiga í hlut.

Sagnfræðileg og hagfræðileg vissa er fyrir, að fækkun fyrirtækja leiðir til verri þjónustu í greininni. Því færri sem fyrirtæki eru í hverri grein, þeim mun auðveldara er fyrir þau að semja um skiptingu markaðarins og um að draga úr kostnaði við þjónustu við fólk.

Sameining fjögurra banka og sala Samvinnubankans til Landsbankans leiðir til, að stórir bankar með almannaviðskipti verða aðeins þrír hér á landi. Fækkun banka úr sjö í þrjá er mikilvægt skref til bankaeinokunar, sem mun minna á samstarf olíufélaganna þriggja.

Bankasameiningin kemur í kjölfar samruna fjögurra af stærstu tryggingafélögunum í tvö risafélög, sem ráða yfir öllum þorra markaðarins. Sú fækkun fyrirtækja er þegar farin að skaða hagsmuni viðskiptavina. Enginn vafi er á, að fækkun banka mun hafa sömu áhrif.

Með þessu er ekki verið að segja, að sameinendur séu vondir menn. Aðeins er verið að vísa til staðreynda, sem blasa við augum í alþjóðlegri og innlendri hagsögu. Það er lögmál, að fækkun fyrirtækja niður í nokkur í hverri grein dregur úr samkeppni milli þeirra, magnar letina.

Ekki má heldur gleyma, að fækkun banka auðveldar stjórnvöldum að skipta sér af stefnu þeirra. Það er auðveldara fyrir ráðherra að troða pólitískum gæludýrum, svo og ýmissi miðstýringu, svo sem vaxtastefnu og öðru handafli, upp á nokkra stóra banka en marga litla.

Hitt er svo líka rétt, að stækkun rekstrareininga getur leitt til aukinnar hagkvæmni, þótt hún skili sér ekki til viðskiptamanna. Íslenzkir bankar eru tiltölulega smáir og hafa notað það sér til afsökunar, þegar þeir eru sakaðir um að vera dýrari í rekstri en útlendir.

Sameining fjögurra fremur lítilla banka býr til öflugan banka, sem hefur þétt net afgreiðslustaða um allt land, þótt sum útibúin verði lögð niður, einkum í Reykjavík. Hann verður að því leyti alhliða banki fyrir alla landsmenn, verðugur keppinautur Landsbankans.

Unnt er að ná fram kostum sameiningarinnar og draga úr ókostum hennar með því að búa til nýja samkeppni að utan. Það gerist með því að heimila erlendum bönkum að starfa hér á landi. Samkeppni að utan dregur úr líkum á, að íslenzkir bankar verði feitir og latir.

Raunar ætti það að vera vörn þjóðfélagsins í öllum tilvikum, er fyrirtækjum hefur fækkað svo í mikilvægum greinum, að jaðrar við einokun. Þannig væri skynsamlegt að leyfa einnig erlendum tryggingafélögum að starfa hér frjálst, svo og olíufélögum og flugfélögum.

Samkeppni að utan kemur í veg fyrir, að stofnanir, sem eru búnar að koma sér þægilega fyrir í skjóli einokunar eða fáokunar, sofni á verðinum. Efnahagslegar framfarir fara að töluverðu leyti eftir getur fyrirtækja til að bæta sig í sífellu til að standast samanburð.

Samkeppni nýrra fyrirtækja að utan er mun áhrifameira tæki til hagræðingar í rekstri en stækkun fyrirtækja með sameiningu. Fjölgunin leiðir nefnilega til, að markaðslögmálin koma til skjalanna. Fyrir því eru ótal dæmi úr erlendri og innlendri hagsögu.

Þegar fagnaðarlátum sameiningarmanna linnir, mættu þeir gjarna hafa stutta þagnarstund til að hugleiða áhrif hennar á hagsmuni smáfiskanna.

Jónas Kristjánsson

DV