Staðfestur þjóðaróvinur

Greinar

“Fækkið sauðfénu” var ráðið, sem erlendir vísindamenn gáfu Íslendingum á fjölþjóðlegri ráðstefnu, sem haldin er núna í Reykjavík um varnir gegn hnignun beitilanda. Þeim kom á óvart, hversu illa landið er farið af völdum samspils ofbeitar og náttúruhamfara.

Gegn umbrotum náttúrunnar getum við lítið gert, enda þyrftum við lítið að gera, ef hún væri ein um hituna. Landið var allt viði vaxið milli fjalls og fjöru meðan náttúran var ein að verki. Fornleifar sýna, að landnámsmenn gerðu til viðarkola uppi á Kili.

Viðbótarþátturinn, sem spillti jafnvægi náttúrunnar á Íslandi, var beitin á afréttum og hálendi. Þetta er nákvæmlega sami þátturinn og hefur leitt til hnignunar beitilanda í sumum löndum þriðja heimsins, einkum við jaðar eyðimarka í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Það sameinar öll þessi svæði, að náttúran er óvenjulega viðkvæm. Sums staða eru þurrkar vandamál, en hér er það kuldi, eldgos og sandfok. Ef beit fer úr hófi á þessum svæðum, hrynur jafnvægið og eyðimerkur þenjast út. Það er einmitt enn að gerast hér á landi.

Erlendu vísindamönnunum kom á óvart, hversu illa Ísland er statt á þessu sviði. Við höfum hins vegar lengi vitað það, því að áratugir eru síðan gróðurkortagerð leiddi í ljós, að ástand afrétta og hálendis var margfalt lakara en menn höfðu áður talið sér trú um.

Við búum enn við þá ömurlegu staðreynd, að meira tapast af gróðri og jarðvegi á hverju ári en vinnst til baka með þrautseigju landgræðslumanna. Við verðum enn að horfa á hverju vori á Mývatnsbændur reka sauðfé sitt á nálina, sem kemur upp úr sandinum.

Hér í blaðinu hefur oft verið lagt til, að beit verði hætt á afréttum og hálendi móbergssvæða landsins, sem eru viðkvæmari fyrir röskun en aðrir hlutar þess. Þetta er einkum Suður-Þingeyjarsýsla norðanlands, Rangárvallasýsla, Árnessýsla og Gullbringusýsla sunnanlands. Sum önnur svæði þola hins vegar mikla beit.

Einn vísindamannanna á ráðstefnunni benti í fréttaviðtali á, að skynsamlegt væri að beita sauðfé eingöngu á afgirt svæði, sem talin eru þola beit. Slík svæði eru yfirleitt gróðursæl heimalönd á láglendi og eru núna notuð fyrir annað búfé, svo sem nautgripi og hesta.

Ísland er stofnaðili nýs sáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna um viðnám gegn útþenslu eyðimarka. Rúmlega hundrað ríki eru aðilar að sáttmálanum og hafa fulltrúar frá þrjátíu þeirra verið að frumkvæði Vigdísar Finnbogadóttur á ráðstefnunni í Reykjavík.

Íslenzkir fræðimenn hafa ýmislegt fram að færa í fjölþjóðlegu samstarfi af þessu tagi. Við getum einnig lært af þjáningarbræðrum okkar í þriðja heiminum, því að alls staðar er í örvæntingu verið að leita lausna til að stöðva framrás eyðimarka af völdum ofbeitar.

Hér í blaðinu hefur nokkrum sinnum verið vakin athygli á, að landeyðing er um þessar mundir svipuð hér á landi og hún er á þeim eyðimerkursvæðum, þar sem hún er mest, svo sem við Sahara, Góbí og Patagóníu. Þetta hefur nú verið staðfest á ráðstefnunni.

Því miður hafa skammtímahagsmunir í sauðfjárrækt áratugum saman verið reknir af trúarofstæki, fléttuðu saman við pólitíska hagsmuni. Landbúnaðarráðuneytið og aðrar gæzlustofnanir hagsmuna landbúnaðarins hafa gengið berserksgang gegn sannleikanum.

Enn einu sinni skal ítrekað, að landið kemst ekki í jafnvægi fyrr en lausagangur sauðfjár hefur verið lagður niður á afréttum og hálendi móbergssvæðanna.

Jónas Kristjánsson

DV