Staðið föstum fótum í fortíðinni

Greinar

Á landsfundi sínum um helgina nálgaðist Alþýðubandalagið lítt þau sjónarmið sem koma fram í nýrri stefnuskrá Grósku, sameiningarfélags vinstri manna. Samflotssigur Margrétar formanns hafði lítið sem ekkert málefnalegt innihald til að varða veginn.

Himinn og haf er milli sjónarmiðanna í stefnuskrá Grósku og samþykktanna á miðstjórnarfundi Alþýðuflokksins um helgina annars vegar og sjónarmiðanna á landsfundi Alþýðubandalagsins hins vegar. Þar náðist ekki einu sinni samkomulag um auðlindagjald.

Að vísu eru stuðningsmenn Margrétar formanns fjölmennari í nýrri miðstjórn Alþýðubandalagsins en í hinni gömlu. Ný miðstjórn getur reynzt formanninum gott jafnvægi gegn andsnúnum þingflokki þegar hún fer að vinna úr vandamálum sem vísað var til hennar.

Landsfundur Alþýðubandalagsins hlýtur þó að valda stuðningsfólki Grósku málefnalegum vonbrigðum. Á fundinum fór ekkert fyrir nýju hugmyndunum, sem eru kjarninn í stefnuskrá hennar og voru hugsaðar til að sameina kjósendur á vinstri væng stjórnmálanna.

Auðvitað er það umhugsunarefni, hversu erfitt Alþýðubandalagið á með að taka nýjum hugmyndum. Flokkurinn er enn að tuða um hernaðarbandalag, sem öll Austur-Evrópa heimtar að fá að ganga í, þar á meðal arftakaflokkar gömlu kommúnistaflokkanna.

Meðan öll Austur-Evrópa vill komast í Nató, er Alþýðubandalagið frosið fast. Meðan Gróska heimtar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, er Alþýðubandalagið hart á móti. Þannig fer lest heimsins hjá, án þess að bandalagið fáist til að hoppa upp í.

Helfrosin andstaða Alþýðubandalagsins við aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu er sömu ættar og getuleysi flokksins við að taka upp félagshyggjustefnu í auðlindamálum þjóðarinnar. Þessi viðhorf spegla ótta fortíðarfólks við ótrygga framtíð.

Af sama toga er runninn eindreginn stuðningur Alþýðubandalagsins við sem allra mest fjárútlát skattgreiðenda til varðveizlu hefðbundins landbúnaðar. Þótt þessi útgjöld lami getu ríkisins til félagslegra útgjalda vill Alþýðubandalagið auka þau sem mest má verða.

Alþýðubandalagið horfir máttvana á breytingarnar í kringum sig. Flokksmenn eru orðnir vanir ágjöf og telja undir niðri að heimur versnandi fari. Allt nýtt, sem rekur á fjörur taparanna, er fyrirfram talið grunsamlegt og hugsanlega lævíslegt tiltæki sigurvegaranna.

Þetta er það, sem stundum hefur verið kallaður vaðmálssósíalismi. Hann er svo sterkur í Alþýðubandalaginu, að flokkurinn getur ekki einu sinni tekið á landsfundi einarða afstöðu gegn framsali auðlinda þjóðarinnar í hendur fámennum hópi útgerðarmanna.

Alþýðubandalagið er yfirleitt andvígt breytingum á núverandi ástandi, hvert sem það er á hverjum tíma. Það óttast nýjar hugmyndir, sem það telur vera sprottnar af rótum ógnarvalds frjálshyggjunnar. Alþýðubandalagið er í rauninni rótgróið svartasta íhald.

Landsfundur Alþýðubandalagsins beygði sig fyrir hinu ytra byrði kröfunnar um sameiningu vinstri manna, en hafnaði innihaldi hennar. Með þessu er bandalagið að kaupa sér frið. Það er að reyna að mæta kröfum fólks, sem það á enga samleið með.

Vaðmálshyggja er ekki vinstri stefna og varðveizla sérhagsmuna er ekki jafnaðarstefna. Þess vegna á Alþýðubandalagið ekki samleið með biðlum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV