Staðlausir stafir

Greinar

Nýi GPRS síminn minn er í þráðlausu sambandi við fistölvuna mína og veraldarvefinn. Hvar sem erlend símafélög eru í reikisambandi við íslenzk símafélög er hægt að vera í sambandi, hvar sem er, á kaffihúsi, á bekk eða í lestinni. Maður les póstinn og svarar honum, skoðar fréttir dagsins.

Með hverju árinu hefur orðið auðveldara að ferðast með vinnuna meðferðis. Staðsetning er ekki sami þáttur í lífi margra og áður var. Þessi leiðari er skrifaður á svölum við Rialto-brú í Feneyjum. Ég er búinn að sjá Moggann og Fréttablaðið á vefnum og veit, að pólitíkin er við það sama.

Líf ferðamannsins batnaði mest, þegar plastkortin komu til sögunnar og gerðu okkur kleift að ferðast án þess að vera með veskin bólgin af seðlum. Ég man enn þá tíma, þegar gjaldeyrir var skammtaður og menn voru að kaupa dollara á svörtum til að geta lifað af á ferðalögum utan landsteina.

Ódýru flugfélögin voru önnur bylting. Nú ferðast maður til útlanda fyrir tæpar 20.000 krónur fram og til baka og til nánast hvaða staðar sem er í Evrópu fyrir 10.000 krónur til viðbótar, ef maður millilendir á lággjaldaflugvellinum Stansted norður af London. Ferð til Feneyja kostar 27.000.

Veraldarvefurinn er mikilvægur þáttur í lágum fargjöldum. Þar er hægt að skoða áætlanir, líta á tilboð og panta far, án þess að flugfélagið sé að eyða peningum í sölumennsku og þjónustu. Með því að afgreiða okkur sjálf á vefnum náum við sambandi við margvísleg og ótrúlega freistandi ferðatilboð.

Einnig er hægt að velja hótel á vefnum. Hótel Þrír strútar við Karlsbrú í Prag hafði mynd af hótelinu á vefnum. Með því að pota í glugga mátti sjá mynd af herbergjunum fyrir innan. Þannig gat ég valið mér herbergi og athugað, hvort það væri laust og á hvaða verði, þegar ég ætlaði að koma til Prag.

Nú er hægt að fá prentaða af vefnum leiðsögn um, hvernig maður fer milli tveggja staða í Evrópu, hvernig maður kemst út af flugvelli á rétta leið og hvað langur kafli er ekinn á hverju vegarnúmeri. Langtímaveðurfréttir prentar maður líka af vefnum, hálfan mánuð fram í tímann. Þær pössuðu jafnvel.

Mér finnst samt GPRS þjónustan vera eitt af stóru skrefum ferðamannsins. Hún kostar að vísu, að ég þarf að vera í vinnunni pínulítið meira á hverjum degi, en hún kemur í veg fyrir, að ég komi að uppsöfnuðum netpósti og verkefnum, þegar ég kem að skrifborðinu eftir einnar viku fjarveru.

Þegar blaðamenn segja eitthvað merkilegt, er stundum sagt með þjósti, að þeir fari með staðlausa stafi. Og altjend hefur tæknin núna gert mig staðlausan, er ég skrifa þetta.

Jónas Kristjánsson

DV