Stækkum þjóðgarðinn.

Greinar

Þingvallanefnd, Náttúruverndarráð og Skipulagsstjóri ríkisins hafa réttilega hafnað óskum landeiganda og hreppsnefndar Þingvallasveitar um úthlutun tíu hektara af Mjóaneslandi undir um það bil 20 sumarbústaði. Miklu nær er, að ríkið kaupi Mjóanes og leggi undir þjóðgarðinn.

Ætlunin með sölu sumarbústaðalóðanna var að fjármagna byggingu fjárhúss á jörðinni. Slík hús þurfum við ekki fleiri í þessu landi og allra sízt í Þingvallasveit. Í staðinn er brýnt að stækka þjóðgarðinn, til dæmis með kaupum á þessari jörð og raunar fleiri jörðum við vatnið.

Þingvallanefnd hyggst fjalla aftur um mál þetta. Mikilvægt er, að hún bili ekki. Fyrri Þingvallanefndir hafa ýmsar staðið sig hrapallega, svo sem sú, er leyfði smíði sumarbústaða í landi ríkisjarðarinnar Gjábakka. Kominn er tími til að nefndin bæti fyrir brot fyrirrennaranna.

Þáverandi Þingvallanefnd úthlutaði Gjábakkalóðunum til vina og kunningja úr yfirstéttinni, án auglýsinga eða útboðs. Hún brást í kyrrþey hlutverki sínu sem verndari Þingvalla. Auglýsing fyrirætlunarinnar hefði sennilega leitt til, að glæpurinn hefði verið stöðvaður.

Nú má vænta þess, að Þingvallanefnd taki hlutverk sitt alvarlegar. Þjóðhátíð 1974 leiddi til ýmissa framkvæmda, sem hafa verið til bóta. Til dæmis hefur vegakerfið verið fært til og komið upp sauðfjárheldri girðingu umhverfis garðinn, svo að mikilvægustu dæmin séu nefnd.

Innan girðingar er gróðurfar í sæmilegu jafnvægi, þrátt fyrir mikið álag, sem jafnan þarf að fylgjast vel með. Utan girðingar er gróður hins vegar víða á undanhaldi, til dæmis í Grafningi, einkum sunnan vatnsins. Þar hafa ofbeit og uppblástur sett svip sinn á landið.

Ekki eru síður alvarleg mistökin, sem orðið hafa í skipulagi sumarbústaðahverfa. Verst er ástandið í landi Miðness. Einu sinni var stungið upp á, að þar yrðu reist Pótemkin-tjöld til að hlífa vegfarendum við útsýninu yfir ömurlegt kraðak sumarbústaðanna.

Innan þjóðgarðs er enn stunduð mjög svo umdeild iðja, ræktun barrtrjáa í landi lauftrjáa. Jafnan var umdeildur furulundurinn, sem nú er að breytast í sitkalund. En jafnvel á allra síðustu árum hefur Skógræktarfélag Árnessýslu ræktað grenitré norður af Vatnsvík.

Í hugmyndasamkeppni árið 1972 um skipulag Þingvalla fólu allar verðlaunatillögurnar í sér stækkun þjóðgarðsins. Sú stækkun hefur ekki enn komið til framkvæmda. Meira að segja hefur eyðijörðum í eigu ríkisins ekki enn verið bætt við þjóðgarðinn. Hvers vegna?

Raunar ætti að lýsa allt Þingvallasvæðið verndarsvæði með sérstökum lögum eins og sett voru um Mývatnssvæðið. Líklega væri heppilegast að fela Náttúruverndarráði umsjá svæðisins að mestu leyti, en Þingvallanefnd sæi áfram um þann hluta, sem var þingstaður.

Náttúruundur Þingvallasvæðisins birtast ekki aðeins í eldbornu landslagi, gjám og gróðri. Sjálft vatnið er merkilegt rannsóknarefni eins og sést af misjöfnum skoðunum á, hversu margar silungstegundir eigi þar heima.

Nauðsynlegt er að vinda bráðan bug að stækkun þjóðgarðsins og hafna sumarbústöðum í landi, sem garðurinn ætti að ná yfir. Jafnframt þarf að semja frumvarp til laga um enn stærra verndarsvæði, svo að stöðva megi hnignun af völdum ofbeitar, uppblásturs, átroðnings og kofasmíða.

Jónas Kristjánsson.

DV