Stærsta sýningin

Hestar

Equitana í Essen í Þýzkalandi, sem haldin er annað hvert ár, er stærsta kaupstefna í heimi um hesta. Næst henni kemur Fiera Cavalli í Veróna á Ítalíu. Equitana er fjórða vinsælasta kaupstefnan í Þýzkalandi með 250.000 gesti, þar af 200.000, sem borga sig inn. Fjölmennari eru tvær bílasýningar og ein bátasýning. Sýningarfyrirtækið er Reed Exhibitions, Völklingerstraße 4, 40219 Düsseldorf, sími: (49)211 90191, netfang: info@reedexpo.de, veffang: www.reedexpo.de.

Alþjóðleg sýning

Á Equitana sýna 800 aðilar frá 20 löndum í rúmlega 10 hektara plássi í tólf sýningarhöllum. Þetta er eina kaupstefnan um hesta, sem kallast getur alþjóðleg. Íslendingar hafa verið þátttakendur frá upphafi og nutu raunar sérstaks velvilja Wolf Kröber, sem stofnaði kaupstefnuna. Þeir fengu fría sýningarbása meðan hans naut við.

Mikill hestaáhugi

Stærð og vinsældir Equitana endurspegla mikinn áhuga á hestum í Þýzkalandi. Þar stunda 1,6 milljónir manna hestamennsku og annar eins fjöldi mundi samkvæmt skoðanakönnunum stunda hana, ef hann fengi tækifæri til þess. Til samanburðar má nefna, að alls eru sex milljón manns í fótboltafélögum Þýzkalands. 250.000 manns hafa atvinnu af hestamennsku þar í landi.

Dýrt að vera með

Nú kostar um 200.000 krónur að vera með bás á sýningunni, ef menn gerast aðilar að óformlegum samtökum þeirra, sem mynda Íslandsþorpið. Innifalið í því verði er hlutdeild í sameiginlegu rými Íslandsþorpsins, uppsetning þess og niðurrif. Ennfremur er í þessari tölu búið að gera ráð fyrir tekjum af þátttöku í kvöldsýningunum. Ekki er meðtalinn kostnaður af burstabæjum Íslandsþorpsins og má gera ráð fyrir, að menn verði að kaupa sig inn í þá smíði eða fá smíðaða viðbót við hana. Svo kostar sitt að senda mann til Essen og hafa hann í níu daga á sýningunni.

Fara halloka

Sýnendur á Íslandshestasvæðinu telja sig hafa heldur farið halloka í samskiptum við sýningarstjórnina í seinni tíð. Þótt Íslandsþorpið sé stærra en samanlagt sýningarsvæði allra annarra hestakynja með góðgangi, er töltbrautin kölluð “Fino Strip” en ekki “Tölt Strip.” Er þó orðið tölt bæði þýzkt og alþjóðlegt orð yfir þá gangtegund, sem greinir tölthesta frá öðrum hestum. Ennfremur eru í stóru kvöldsýningunum gerðar kröfur, sem miða einhliða við spænska reiðskólann og henta ekki íslenzkum hestum.

Íslendingar fá næst að sýna sterku hliðarnar

Hans Joachim Erbel, forstjóri Equitana:

Equitana hófst fyrir rúmlega þremur áratugum, árið 1972 og var þá framtak eins manns, Wolf Kröber. Þessi kaupstefna varð snemma mjög vinsæl, sem aftur kallaði á aukna skipulagningu, svo að nú er hún rekin af hlutafélagi, sem sérhæfir sig í kaupstefnum af ýmsu tagi.

Við höfum takmarkað sýningarrými og þurfum að nota það sem bezt. Við höfum fært sýnendur til og reynt að færa þá saman eftir flokkum. Þannig eru sýnendur Íslandshesta í sérstakri sýningarhöll með sýnendum annarra ganghestakynja. Við teljum, að þetta auki árangur sýnenda og viðskiptavina þeirra.

Við erum með sýningargerði á ýmsum stöðum, en þungamiðjan er 5.000 manna reiðhöll, þar sem eru sýningar allan daginn. Þar er til dæmis hestahvíslarinn Monty Roberts með sýningu á hverjum degi. Hátindur sýninganna er Hot Top söngleikurinn síðustu fjögur kvöld kaupstefnunnar.

Áður fór úrval dagssýninganna á stóru kvöldsýninguna, en nú höfum við tvö ár í röð farið þá leið að hafa sérstaka sýningu á kvöldin og hafa sameiginlegan söguþráð í henni.

Íslendingar geta auðvitað nýtt sér dagssýningarnar til að koma sérkennum íslenzka hestsins á framfæri, svo sem gangtegundum og gangskiptingum. Ekki má heldur gleyma því, að jafnan er fullt hús á þeim sýningum, alveg eins og kvöldsýningunum. Þær hafa því mikið kynningargildi.

Þú segir, að Íslendingar séu óánægðir með, að kvöldsýningin sé reyrð í viðjar spænska reiðskólans. Við þurfum auðvitað að þróa þessar kvöldsýningar áfram. Ég get á þessari stundu bara svarað því til, að ég lofa því, og ég endurtek, að ég lofa því, að næst geta Íslendingar fengið að sýna gangtegundir og gangbreytingar íslenzka hestsins á Hot Top kvöldsýningunni.

Íslandsfæddir hestar eru ekta

Herbert “Kóki” Ólason hjá Top Reiter:

Allar götur frá 1983 hef ég eða fyrirtæki á mínum vegum verið með bás á sýningunni. Andinn var meiri hér áður fyrr, þegar hugsjónamaðurinn og kraftaverkamaðurinn Gunnar Bjarnason réð ferðinni. Þá var mikill heiður fyrir knapa að fá að taka þátt í íslenzku reiðsýningunum, sem voru eftirlæti áhorfenda og fengu fólk til að velja sér íslenzkan hest frekar en annan. Nú hefur enginn tíma til að vera með hugsjónir og meðalmennskan ríkir því miður.

Við höfum hér betra pláss en oftast áður. Öll 4. höllin er fyrir ganghesta og þar er íslenzki hesturinn fyrirferðarmestur. Við höfum hér töltbraut inni í höllinni. Þar höfum við tækifæri til að hafa beztu knapana á launum við að sýna beztu hestana, en notum það ekki nógu vel fátæktar vegna. Tekjur okkar af íslenzka þættinum í skrautsýningunni eru að hluta notaðar til að niðurgreiða básaverð og að hluta til að greiða knöpunum 500 evrur fyrir allan sýningartímann. Beztu knöpunum finnst þetta ekki svara kostnaði. Fleiri þurfa að koma að málunum til að hlutirnir gangi upp.

Síðustu tvö árin hefur verið riðið á skrautsýningunni eftir stífu prógrammi, sem sýningarstjórnin hefur ákveðið. Þetta prógramm er einhliða sniðið að spænska reiðskólanum og hentar ekki íslenzka hestinum. Við þurfum að fá að hafa okkar eigin sýningu með okkar beztu knöpum og hestum, svo að fólk standi upp og stappi fótum af hrifningu eins og í gamla daga.

Við þurfum að byggja íslenzkan reiðskóla á íslenzkum hefðum með góðum kennurum og góðum kennslugögnum. Við þurfum að selja umheiminum þennan reiðskóla sem sérstakt hugtak eins og spænska reiðskólann og hafa af því tekjur. Hólaskóli ætti að gefa tækifæri til þessa, en hefur því miður hingað til verið of upptekinn af kennslu í meðferð gæðinga. Við þurfum fleiri menn, sem hafa öðlazt starfsþjálfun í að koma venjulegum miðlungshestum í form, sem hentar almenningi.

Við þurfum að markaðssetja íslenzka hestinn sem Íslandsfæddan hest. Við þurfum að hamra á því, að hestar, sem eru fæddir og aldir upp á Íslandi, séu betri en íslenzkættaðir hestar, sem alast upp erlendis. Umhverfið er annað á Íslandi, víðernið, brattinn, þýfið og grjótið, sem til samans gerir hestinn fótvissan og þolgóðan. Við þurfum að segja einum rómi: Íslenzkfæddi hesturinn er sá, sem er ekta.

Exem hjá Íslandsfæddum hestum er mikið vandamál í sölu til Þýzkalands og raunar til annarra landa. Ráðuneytið og bændasamtökin þurfa að mæta vandamálinu beint að framan með dreifingu vísindalegra upplýsinga um exemið og meðferð þess, um landfræðilegar og fóðurfræðilegar orsakir þess, um smyrsli og ábreiður og um inniveru hrossa í ljósaskiptunum, þegar flugan bítur. Það borgar sig að ráðast beint á vandann í stað þess að fara í felur.

Okkur vantar einfalda hesta

Claus Becker hjá Saga Reitschulen:

Við þurfum meira af Golf og minna af Porsche. Við þurfum að fá til Þýzkalands einfalda og þægilega hesta, sem henta almenningi. Við þurfum ekki mikið af ræktunarhrossum og sporthestum, heldur frístunda- og fjölskylduhestum. Frístundir skipta stöðugt hærri sess hjá fólki. Útgjöld til frístunda hafa áttfaldazt á stuttum tíma og eru nú komin í 1.000 evrur á fjögurra manna fjölskyldu.

Hér í landi stundar ein og hálf milljón manna hestamennsku og rúmlega ein og hálf milljón borgarbúa vill stunda hestamennsku, en hefur ekki fengið tækifæri til þess. Íslenzkir fjölskylduhesturinn er það, sem þetta fólk þarf, en hann er bara ekki fáanlegur. Við þurfum að selja þessu fólki, sem er svo skammt á veg komið í hestamennsku, að það hefur varla fengið að snerta hest.

Munurinn á kóki og íslenzkum fjölskylduhesti er, að kók er vont, dýrt og óhollt, en alls staðar markaðssett. Íslenzki fjölskylduhesturinn er hins vegar nákvæmlega það, sem hinn fjölmenni markaður þarf, en er hins vegar tæplega fáanlegur.

Fyrst þarf að kenna fólki að ríða íslenzkum hestum. Sala á hestum kemur í kjölfarið. Allt of lítið er um kennslu fyrir byrjendur, því að þjálfarar vilja helzt sinna þeim, sem lengra eru komnir. Við þurfum að vinna íslenzka hestinum brautargengi stig af stigi, allt frá byrjendakennslu yfir í helgardvalir á hestabúgörðum með lokastigi í sölu hesta.

Saga Reitschule reiðskólarnir í Þýzkalandi feta markvisst þessa leið með því að samtvinna kennslu og endurþjálfun, helgar- og frístundadvalir, sölu og fóstrun hrossa. Við stefnum að hundrað slíkum skólum á næstu árum, sem allir verða reknir samkvæmt sömu áætlun.

Yfirvöld landbúnaðarmála á Íslandi sinna þessum möguleikum ekki nógu vel. Í stað þess að styrkja bændur til að vera með niðurgreiddar og óhagkvæmar kýr og kindur á að hjálpa þeim til að rækta góða hesta niðurgreiðslulaust og koma þeim á markað í útlöndum, af því að hestarnir fara langt með að standa undir sér sjálfir.

Ráðuneytið á að taka mikinn þátt í Equitana til að kynnast markaði milljóna manna og til að hjálpa íslenzkum hrossabændum til að komast inn á hann í auknum mæli.

Of löng kaupstefna

Einar Bollason í Íshestum:
Þetta er of löng og of dýr kaupstefna, sem þyrfti að stytta. Við hittum hér gamla viðskiptavini og endurnýjum vinskapinn. Ég sé ekki fyrir mér, að íslenzkir hrossabændur mundu selja hross með því að vera hér, en samtök þeirra gætu notað kaupstefnuna til að reka áróður fyrir íslenzkt fæddum hestum og til að dreifa upplýsingum um sumarexem og meðferð þess. Ullarvöruframleiðendur gætu notað kaupstefnuna, því að hér selst alltaf töluvert af slíkum vörum. Sama er að segja um annan varning, sem byggist á sérstöðu Íslands, hann gæti haft gagn af aðild að sýningunni.

Ráðuneytið þarf bás

Arinbjörn Jóhannsson á Brekkulæk:

Ég er búinn að vera með bás á Equitana frá 1985. Þetta er eini staðurinn fyrir utan heimsleikana, þar sem hægt er að hitta hugsanlega viðskiptavini. Ég hitti gamla kúnna úr fyrri hestaferðum, sem koma með vini sína, og þannig komast á ný viðskipti. Það er ekki sjálfgefið, að ég verði áfram með bás, því að íslenzki þátturinn er farinn að dragast saman. Landbúnaðarráðuneytið og stofnanir þess þyrftu að vera með bás og hafa þar stöðuga viðveru til að gefa hlutlausar upplýsingar um allt, sem varðar íslenzka hestinn. Þá mundi íslenzka aðildin vigta betur.

Hrossabændur fjarri

Stefán Sveinsson á Útnyrðingsstöðum:

Okkar ferðir hjá Gæðingar Tours eru lítið seldar hér, heldur fyrst og fremst hjá ferðaskrifstofum, sem vísa á, að fólk geti hitt mig hér á sýningunni. Ég er hér, af því að þannig kemst ég persónulega í samband við kúnnann. Mér finnst, að hrossabændur ættu að gera slíkt hið sama, hafa hér mann og bás til að kynnast viðhorfum fólks milliliðalaust. Svo finnst mér, að markaðsmenn hestageirans á Íslandi ættu að hafa að markmiði, að hér á Equitana sé aðeins sýnt það allra bezta, sem völ er á, sérstaklega á daglegu skrautsýningunni.

Vestrið að koma inn

Magnús Sigmundsson á Vindheimum:

Íslenzki þátturinn á Equitana heldur sjó, en er ekki lengur sá vinsælasti. Western reiðmennska er tízkufyrirbærið hér á kaupstefnunni eins og sjá má af samanlögðu flatarmáli sýningarbása. Hjá okkur Íslendingum er mikill peningaskortur og sýningar mikið til byggðar á sjálfboðavinnu, sem ekki er lengur samkeppnishæf. Í gamla daga var íslenzka sýningin vinsælust allra og svo þyrfti að verða aftur. Þá stóðu menn upp, klöppuðu og stöppuðu. Við í Hestasporti erum hér til að sýna okkur og sjá aðra, hitta gamla kúnna og dreifa bæklingum, en raunveruleg sala fer mest fram á öðrum vettvangi.

Landsmót verði sýnilegra

Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður Landsmóts ehf:

Við höfum tekið eftir, að Landsmót er ekki nógu sýnilegt erlendis, þar á meðal ekki hér á sýningunni. Við þurfum að kynna það vel á heimsleikum og kaupstefnum. Við dreifum hér bæklingi um landsmótið 2004. Að öðru leyti erum við að kanna aðstæður hér og hvaða leiðir komi til greina til að kynna landsmótin á kaupstefnum framtíðarinnar. Hins vegar er ljóst, að landsmótið 2004 verður vel kynnt á heimsleikunum í Herning í sumar. Við stefnum að því, að ekki fari fram hjá neinum, að landsmótin eru þungamiðja íslenzkrar hestamennsku.

Sameiginlegt slagorð

Þröstur Karlsson, formaður Landsliðsnefndar:

Íslenzkir hestamenn þurfa að vinna að því, að ýmsir aðilar, sem standa að margs konar framleiðslu og þjónustu, vinni undir einu slagorði, til dæmis “upprunalegur”, “the original”, “der Ursprungliche”. Við leggjum þá áherzlu á, að Íslandsfæddi hesturinn sé sá upprunalegi, umfram íslenzka hesta, sem fæddir eru í útlöndum. Undir þessu vörumerki, samheiti eða slagorði má einnig selja hestaferðir, náttúruskoðun, ullarvörur, vatn, hunda, reiðtygi, bókmenntir, myndbönd og svo auðvitað Landsmótið sjálft.

Allir á einum stað

Lothar Schenzel á Kronshof:

Við öll, sem tengjumst íslenzka hestinum eru hér saman með bása á einum stað í höll nr. 4 og störfum mikið saman til að gæta hagsmuna okkar gagnvart sýningunni í heild og gagnvart sýnendum frá öðrum hrossakynjum með góðgang, sem eru hér á sama svæði og reyna að komast upp með ýmislegan yfirgang. Helzta vandamálið er of lítil þátttaka af hálfu Íslendinga. Hér þurfa að vera fleiri reiðmenn, hrossabændur og sölumenn frá Íslandi og íslenzk stjórnvöld þurfa að veita kaupstefnunni meiri athygli. Hitt vandamálið er, að við þurfum að vinna að því að losa daglegu skrautsýninguna úr viðjum þröngra fyrirmæla af hálfu sýningarstjórnar, svo að íslenzkir hesturinn geti notið sín á eigin forsendum.

Hestar, land og þjóð

Anton Antonsson í Terra Nova Sol:

Á sumrin erum við með tólf flug til Íslands frá Düsseldorf, München, Berlín og Frankfurt. Flest af þessu fólki dvelst á Íslandi í tvær vikur og velur ýmsa pakka, þar sem hestaferðir og hestamennska eru mikilvægur þáttur. Ímynd íslenzka hestsins og staða hans í náttúrunni ræður úrslitum í vali margra, sem vilja heimsækja Ísland. Einnig tala viðskiptavinirnir um náttúruna sem slíka, gleði og gestrisni Íslendinga, sérstaklega til sveita. Við erum að selja aðgang að hestum, landi og þjóð.

Spænskar kvadrillur

Sigurbjörn Gunnarsson í Ásamýri:

Þetta er skemmtiferð eins og árið 1985, þegar ég var hér í fyrra skiptið. Þetta er svo sem ágætt, en ég efast um, að ég komi aftur. Íslenzka svæðið hefur minnkað og skrautsýningum hefur farið aftur. Nú er lögð einhliða áherzla á sýningaratriði spænska reiðskólans, auðvitað á kostnað þeirra hrossakynja, sem ekki eru alin upp í honum. Ég skil ekki, hvað íslenzki hesturinn er að gera í slíkum sýningum á kvadrillum í stað þess að sýna gangtegundirnar, sem eru hans aðalsmerki.

Svarar ekki kostnaði

Hróðmar Bjarnason í Eldhestum:

Við vorum með bás á Equitana 1990 og 1992. Það var mikil fyrirhöfn og kostnaður, en árangur var lítill. Okkur fannst ekki koma nein aukning farþega frá Þýzkalandi í kjölfarið. Okkur fannst líka illa staðið að sýningu á íslenzka hestinum og hann drukkna í sýningarhafinu. Við teljum líka óeðlilegt og hlutdrægt, að samkeppnisaðili sé þar með bás með opinberum aðila, Ferðamálaráði. Við seljum aðallega gegnum ferðaskrifstofur og erum næstum með fullbókað á þessum tíma árs, svo að ekki er auðvelt að sjá sérstakt gagn af þátttöku í Equitana. Við erum þó ekki andvígir aðild að kaupstefnum yfirleitt. Við vorum til dæmis með bás á Globen Horse Show í Svíþjóð í lok nóvember á síðasta ári og teljum okkur sjá árangur af því. Við ætlum að vera með þar næst, en eitthvað mikið þarf að breytast til að við förum aftur að taka þátt í Equitana.

Höfum ekki ráð á þessu

Kristinn Guðnason í Félagi hrossabænda:

Við höfum tekið þátt í Equitana, en ekki síðustu tvö skiptin. Fjarvera Félags hrossabænda byggist fyrst og fremst á peningaleysi. Við þurfum að nota okkar litla fé í annað. Hins vegar erum við með hugmyndir í gangi um að afla meira fjár til markaðsmála. Ef það tekst, getum við ef til vill farið að gera okkur sýnilega á erlendum kaupstefnum. Við höfum áhuga á að geta lagt fram upplýsingar um, hvernig megi draga úr exemi og losna við það. Ennfremur höfum við áhuga á að auglýsa þá staðreynd, að Íslandsfæddur hestur sé hinn upprunalegi Íslandshestur og þar með eigulegri gripur en aðrir slíkir hestar.

Hittir gamla vini

Eggert Pálsson á Bjargshóli:

Ég hef verið verktaki hjá Arinbirni í hestaferðum og kem hingað til að hitta gamla vini úr ferðunum. Það er mikil skemmtun að vera hér á sýningunni.

Byggjum á dagsþemum

Mareike Schwardtbaum sýningarstjóri íslenzkra hesta:

Við skipuleggjum nokkrar sýningar á hverjum degi á töltbrautinni inni á sýningarsvæði íslenzka hestsins. Við höfum eitt sérstakt þema á hverjum degi, til dæmis dag barnsins, dag hinna öldruðu, dag sýnenda og svo framvegis. Allt er þetta unnið í sjálfboðavinnu af hálfu knapa, sýnenda og Íslandshestafélagsins í Þýzkalandi. Svo erum við aðilar að einni stórri skrautsýningu á aðalsvæðinu á hverju kvöldi, en því miður er hún reyrð í viðjar, sem henta ekki íslenzka hestinum.

Sýningum fer aftur

Dieter Wendler Jóhannsson hjá Flugleiðum:

Equitana hefur farið aftur síðan Wolf Kröber átti kaupstefnuna og rak hana. Amerískt hlutafélag hefur eignazt hana. Aðgangseyrir hefur tvöfaldazt og aðsóknin minnkað úr 400.000 í 250.000 manns. Íslendingar voru á sérkjörum í básaleigu hjá Kröber, en það gildir ekki lengur. Áður voru skrautsýningarnar glæsilegar, en nú er allt til sparað, svo að þær eru ekki svipur hjá sjón.

Vill sýna á landsmóti

Klaus Elblinger í EVM Quick Shop:

Ég tek þátt um það bil tíu svona kaupstefnum á hverju ári og stefni á að vera með bás á landsmótinu 2004 á Íslandi. Þetta er góð sýning með mikilli aðsókn og ég er ánægður með árangurinn. Nú vantar mig hestavöruverzlun á Íslandi til að hafa umboð fyrir vörurnar frá mér.

Prjónaði úr lopa

Barbara Trageser sat og prjónaði viðstöðulaust úr íslenzkum lopa í sýningarbás Reutenmühle.

Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003