Stalín fór og Pútín kom

Greinar

Munurinn á Pútín og Stalín er fyrst og fremst sá, að Stalín hafði mikinn tíma til að koma upp ógnarstjórn sinni, en Pútín er rétt að byrja feril sinn. Hugarfar þeirra er svipað, það sama og ræktað var áratug eftir áratug með embættismönnum Sovétríkjanna sálugu.

Sameiginlegt einkenni er sjúkleg tortryggni og leyndarþrá. Á valdatíma Pútíns hafa yfirlýsingar stjórnvalda færzt í horf Stalíns, hvort sem fjallað er um sjálfstjórnarhéraðið Tsjetsjeníu eða kafbátinn Kúrsk. Staðreyndir eru ekki einu sinni aukaatriði í yfirlýsingum kerfisins.

Eftir kafbátaslysið gáfu yfirvöld út margvíslegar og misvísandi yfirlýsingar um orsakir þess. Þótt engar væru þær eins, áttu allar það sameiginlegt að koma hvergi nærri staðreyndum málsins. Stjórnvöld fundu enga þörf til að upplýsa almenning um raunverulega stöðu mála.

Pútín vildi ekki fá útlendinga til aðstoðar við björgun, en neyddist til þess, af því að fólk trúði ekki fréttum kerfisins. Hann sér nú eftir að hafa látið undan, því að athuganir Breta og Norðmanna á kafbátnum gera kerfinu ókleift að flytja frekari rangfærslur um stöðu mála.

Pútín lenti í vandræðum með tortryggnina og leyndarþrána í máli kafbátsins Kúrsk. Hann komst hins vegar upp með rangar upplýsingar um gang og stöðu styrjaldarinnar í Tsjetsjeníu. Í því máli var rússneskur almenningur reiðubúinn að trúa orðum arftaka Stalíns.

Tortryggni rússneska kerfisins, arfsins frá sovézka kerfinu, hefur greinilega komið fram í máli Alexanders Nikitins, eftirlaunaskipstjóra úr flotanum, sem vann skýrslur fyrir norska umhverfisstofnun um kjarnorkuvélar í ryðgandi kafbátahræjum við Kolaskaga.

Í tæp fimm ár hefur Nikitin verið kærður níu sinnum fyrir njósnir, sumpart fyrir brot á leynilegum lögum og sumpart fyrir brot á afturvirkum lögum. Pútín hefur verðlaunað helzta ofsækjanda Nikitins með því að gera hann að sérstökum yfirvarðhundi sínum í Pétursborg.

Blaðamaðurinn Grigori Pasko var dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir njósnir, er sýnd var í sjónvarpi myndbandsupptaka hans af herskipi flotans, þegar það var að fleygja kjarnorkuúrgangi í Japanshaf. Nokkrir tugir rússneskra umhverfissamtaka sæta nú ákærum stjórnvalda.

Pútín er sérstaklega uppsigað við umhverfissinna, enda urðu Sovétríkin sálugu mesta umhverfisslys, sem hnötturinn hefur orðið fyrir frá upphafi sagnfræðinnar. Undir stjórn hans leggur rússneska kerfið sérstaka áherzlu á að varðveita leyndarhjúpinn um þessa mengun.

Á Vesturlöndum vita menn, að lýðræði er allt annað og meira en kosningar. Vestrænt lýðræði felur í sér gegnsætt stjórnarfar og upplýsingaskyldu, dreifingu valdsins á marga staði, skipti á ríkisstjórnarflokkum, lög og rétt. Flest eru þetta atriði, sem eru eitur í beinum Pútíns.

Hann beitir leynilegum og afturvirkum lögum gegn þeim, sem honum er illa við. Hann reynir að safna öllu valdi í sínar hendur. Hann reynir að gera stjórnarfarið eins ógegnsætt og hægt er. Þetta allt lærði hann í leyniþjónustunni KGB, sem var hans fyrri vinnustaður.

Pútín fór í stríð við Tsjetsjeníu til að æsa þjóðernisofsa upp í Rússum og fá þá til að styðja sig í kosningunum á þessu ári. Þannig falla stalínsk vinnubrögð að rússneskum kjósendum, sem hafa kynslóð eftir kynslóð ekki þekkt annan sannleika en þann, sem kemur að ofan.

Vesturlönd eiga eftir að hafa mikil óþægindi af stjórnvöldum Rússlands, sem sigla beitivind í átt til þess ástands, sem ríkti í Sovétríkjunum sálugu.

Jónas Kristjánsson

DV