Stálu kosningum

Greinar

Stálu kosningum

Gistivinum Davíðs Oddssonar í Úkraínu virðist hafa tekizt að stela forsetakosningunum þar í landi. Viktor Janukovits forsætisráðherra hefur verið tilkynntur sigurvegari, þótt útgönguspár og allar erlendar eftirlitsstofnanir telji, að hann hafi fengið 35-40% atkvæða, en keppinauturinn 60-65%.

Um þetta eru nánast allir sammála, jafnt Evrópusambandið sem Bandaríkin. Á öðru máli eru aðeins leifar Sovétríkjanna, einkum Vladimír Pútín, einræðisherra Rússlands, og Alexander Lukashenko, einræðisherra Hvíta-Rússlands, sem eru að reyna að varðveita leifar hins gamla þjóðskipulags Sovétríkjanna.

Því miður er lítið hægt að gera í málinu. Bandaríkin eru meira en upptekin af árásinni á Írak og Evrópusambandið er ekki orðið herveldi. Meirihluti kjósenda í Úkraínu hefur því ekki erlendan stuðning gegn glæpahyskinu, sem ræktað hefur vinur Davíðs, Leoníd Kuchma, fráfarandi forseti landsins.

Í leifum Sovétríkjanna í Evrópu er alls staðar stjórnað með glæpum, þar á meðal morðum. Kuchma hefur látið skera á háls þá blaðamenn, sem hann telur ekki vera halla undir sig. Fjölmiðlungar í Úkraínu eru þjónar forsetans, rétt eins og Davíð og menn hans vilja, að þeir hagi sér hér á landi.

Þótt Úkraína sé í Evrópu, hefur ekki verið neinn pólitískur vilji í álfunni til að viðurkenna hana sem slíka. Í stað þess að einangra glæpalýðinn, sem stjórnar landinu, hafa einstaka ráðamenn verið að læðast í Kænugarð til að gefa morðingjunum gæðastimpil, þar á meðal okkar eigin Oddsson.

Svíþjóð, Eystrasaltsríkin og nokkur önnur ríki Mið-Evrópu hafa reynt að reka áróður innan Evrópusambandsins fyrir því, að dinglað sé freistingu aðildar framan í mafíósa Úkraínu. Það hefur ekki tekizt. Evrópusambandið hefur nóg með að gleypa Mið-Evrópu og getur ekki meira að svo komnu máli.

Svo virðist sem ráðamenn Vesturlanda standi rétt að máli Úkraínu. Þeir neita að viðurkenna úrslitin, en hóta ekki neinu, sem þeir geta ekki staðið við eða vilja ekki standa við. Heimspólitíkin er í þeirri stöðu, að hún vinnur gegn því, að meirihluti Úkraínumanna fái vestrænt stjórnarfar.

Sigurvegarinn er Vladimír Pútín, sem hefur endurreist einræði í Rússlandi, tryggt undirgefni nágrannaríkjanna og flutt vinnubrögð rússnesku mafíunnar ekki bara til Úkraínu og Hvíta-Rússlands, heldur einnig til Rúmeníu og Búlgaríu, þar sem rússneskir dólgar ráða ferðinni í atvinnulífinu.

Ekki verður gaman, þegar Leoníd Kuchma og Viktor Janukovits í Kænugarði byrja að krefjast þess að fá að endurgjalda heimsókn Davíðs Oddssonar og fríðs föruneytis til Úkraínu.

Jonas Kristjansson

DV