Stefnt að Stefaníu.

Greinar

Svavar Gestsson, hinn nýi leiðtogi Alþýðubandalagsins, hefur opinberlega bent hinum flokkunum þremur á að mynda hægri stjórn. Alþýðubandalagið ætlar á næstunni að hossa sér í stjórnarandstöðu meðan hinir skerða lífskjörin.

Í síðustu viku lagði Alþýðubandalagið fram efnahagstillögur, sem fyrirfram var vitað, að væru Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum mjög á móti skapi. Enda höfnuðu þeir tillögunum í öllum atriðum, sem máli skiptu.

Svavar Gestsson reyndi ekki að ná málamiðlun. Hann hætti strax tilraunum sínum til stjórnarmyndunar og sagði Alþýðubandalagið ekki vilja taka þátt í ríkisstjórn upp á ráðherrastólana eina. Hann skarst hreinlega úr leik.

Með þessu hefur Alþýðubandalagið búið sér til sérstöðu, sem gefur því tækifæri til að magna vinnudeilur á næstu mánuðum og undirbúa jarðveginn fyrir sigur í næstu kosningum. Vinstri stjórn hentar bandalaginu ekki.

Tillögur Alþýðubandalagsins voru sumpart óskhyggja út í loftið, svo sem hugmyndin um 7% aukningu framleiðni á þessu ári. Það gæti alveg eins lagt til, að jörðin verði færð til á braut sinni um sól.

Að öðru leyti fólu tillögurnar í sér rothögg á kaupfélögin, flótta sparifjár úr bönkum, auknar niðurgreiðslur og félagsmálapakka án fjáröflunar á móti. Þær áttu greinilega ekki að freista samstarfsflokkanna.

Athyglisvert er, að Alþýðubandalaginu tókst að sprengja vinstri viðræðurnar á verðbólgunni einni saman. Ekkert var byrjað að tala um hið hefðbundna ágreiningsefni, herliðið í Keflavík og þátttökuna í Atlantshafsbandalaginu.

Einnig er athyglisvert, hvernig Alþýðubandalaginu hefur tekizt að kippa fótunum undan Steingrími Hermannssyni, sem virðist hafa gengið með vinstri stjórn á heilanum allt frá föðurgarði. Sú stjórn er úr sögunni eftir 578 daga styrjöld.

Allt frá kosningunum 25. júní 1978 hefur verið reynt að gera út vinstri stjórn. Formlega séð var slík stjórn mynduð. En innihaldið var ekkert nema endalaust upphlaup og rifrildi, launsátur og bræðravíg.

Samt hefur hinn nýi formaður Framsóknarflokksins varla opnað svo munninn í vetur, að hann hafi ekki óskað eftir vinstri stjórn. Hvað gerir hann nú, þegar Alþýðubandalagið er búið að vísa honum veginn til hægri stjórnar?

Fólk kvartar um, að stjórnarkreppan hafi staðið of lengi eftir síðustu kosningar, 52 daga. En í rauninni hefur hún staðið miklu lengur. Það hefur tekið 578 daga að komast að því einu, að vinstri stjórn gengur ekki.

Nú má búast við, að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn fari að athuga í alvöru, hvort þeir eigi ekki að fara að ráðum Svavars og mynda hægri stjórn. Ágreiningur í verðbólgumálum ætti ekki að þvælast fyrir.

Allir þessir flokkar hafa sett fram keimlíkar tillögur um minnkun verðbólgu í áföngum, meðal annars með skerðingu lífskjara. Alþýðubandalagið vildi hins vegar fullar verðbætur upp í hæstu skala, að vísu án hækkunar grunnkaups.

Vonandi verða flokkarnir þrír ekki nýja 578 daga að komast að því, hvort hægt er að gera út hægri stjórn af Stefaníugerð. Hvorki er reisn né kjarkur í tillögum þeirra, en þær eru þó betri en ekki neitt.

Og ný Stefanía er óneitanlega margfalt betri en utanþingsstjórn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið