Þeir, sem hafa atvinnu af að segja fólki, hvað sé að gerast í heimsmálunum, hafa deildar skoðanir um, hvað muni gerast á toppfundinum í Reykjavík um helgina. Meira að segja gætir misræmis í því litla, sem málsaðilar sjálfir hafa viljað láta frá sér fara um dagskrána.
Sumir ganga svo langt að segja toppfundinn einkum haldinn til að sýnast fyrir fólki. Gorbatsjov og Reagan hafi heimahagsmuni af fréttum um, að þeir talist við. Í samanburði við það skipti þá litlu máli, um hvað sé í rauninni talað eða hvort yfirleitt sé talað um neitt.
Sjónhverfingar eru ævinlega þáttur toppfunda. Leiðtogar tímasetja toppfundi gjarna að einhverju leyti með tilliti til hagsmuna sinna heima fyrir. En hingað til hafa slíkir fundir þó ekki reynzt hafa slíkar meginforsendur. Og svo er einnig um fundinn í Reykjavík.
Ef leiðtogar heimsveldanna ætluðu sér að nota toppfund fyrst og fremst í sjónhverfingaskyni, mundu þeir fljótlega verða uppvísir að því. Fréttamennska er orðin svo hörð og leki embættis- og ráðamanna svo stríður, að markleysi slíkra funda mundi fljótt koma í ljós.
Aðrir halda fram, að þetta sé ekki eiginlegur toppfundur, heldur eins konar undirbúningsfundur. Bandarískir valdamenn leggja sérstaka áherzlu á þetta sérkennilega atriði, enda sömdu leiðtogarnir fyrir tæpu ári um, að næsti toppfundur yrði í Bandaríkjunum.
Augljóst er, að það er ekki verkefni leiðtoga heimsveldanna að undirbúa toppfundi. Það hefur alltaf verið verkefni sérskipaðra embættismanna, er það enn og verður svo áfram. Þeir leggja fram vinnslugögn, reyna að skýra línurnar og finna, hver ágreiningurinn er.
Leiðtogarnir hafa fyrst og fremst það verkefni að skrifa undir það, sem embættismennirnir hafa barið saman. Ef herzlumuninn vantar, að embættismönnunum hafi tekizt það, er hlutverk leiðtoganna að höggva hnútinn í einkasamræðum, án nærveru embættismanna.
Þannig er einmitt staðan núna. Embættismenn málsaðila hafa í sumar og haust skýrt og skilgreint ágreininginn á nokkrum mikilvægum sviðum. Það hefur gerzt á sérstökum fundum í Stokkhólmi, Vínarborg og Genf, svo og á röð funda utanríkisráðherranna í New York.
Í ýmsum þessara atriða hefur komið í ljós, að bilið milli deiluaðila er ekki eins mikið og áður var talið. Í leiðurum DV hefur í sumar og að undanförnu nokkrum sinnum verið fjallað um, hvert bilið væri á hverju sviði. Ekki er rúm til að endurtaka það hér.
Staðan er orðin þannig, að leiðtogarnir hafa á nokkrum sviðum tiltölulega einfalda hnúta að höggva. Í einkaviðræðum sínum í Reykjavík hafa þeir til þess frið. Annað mál er svo, hvort þeim tekst það. En tækifærið er betra en verið hefur um margra ára skeið.
Ef sæmilega gengur í Reykjavík, er sennilegt, að ekki verði langt í annan toppfund í Bandaríkjunum, þar sem skjöl verði undirrituð á formlegan hátt í virðulegri athöfn. Það breytir ekki því, að vatnaskilin í sambúð heimsveldanna verða hér, en ekki þar.
Í Reykjavík setja leiðtogarnir stafina sína í mesta lagi undir þau atriði, þar sem þeir hafa höggvið hnútinn í sundur. Ef til vill verður það um meðaldrægar kjarnaeldflaugar í Evrópu. Ef til vill og vonandi verður það um sitthvað fleira, því að til þess standa málsefnin.
Reykjavíkurfundurinn er hvorki sjónhverfingafundur né vinnufundur, hvað sem ráðamenn segja. Hann er stefnumarkandi fundur um nánustu framtíð mannkyns.
Jónas Kristjánsson
DV