Steinbarnið er feimnismál

Greinar

Álverið, sem iðnaðar- og utanríkisráðherra vilja reisa á Reyðarfirði, er ekki lengur álver Norsk Hydro með íslenzkri eignaraðild, heldur íslenzkt álver með 20­25% eignaraðild Norsk Hydro. Þetta eru fréttir, sem ekki hafa legið á lausu fyrr en núna eftir kosningar.

Þrátt fyrir digurbarkaleg ummæli um mikla arðsemi fyrirhugaðs álvers, hefur áhugi Norsk Hydro farið ört minnkandi, ef hann er reiknaður í loforðum um hlutafjárprósentu. Nú er reiknað með, að álverið verði umtalsverður baggi á fjárfestingargetu Íslendinga.

Með því að reyna að veita fjármagnsstraumum Íslands í farveg álvers á Reyðarfirði, eru iðnaðar- og utanríkisráðherra með hjálp ríkisstjórnarinnar allrar að taka upp þriðja heims stefnu í stóriðju. Það sem Svisslendingar hafa losnað við, vilja þeir innleiða hér.

Einu sinni vildu Svisslendingar álver, af því að þeir eiga nóg vatnsafl. Langt er síðan þeir fóru að losa sig við þessi fyrirtæki, sem í senn hafa tiltölulega litla arðsemi og veita tiltölulega litla vinnu. Nú er svo komið, að Svisslendingar hafa losað sig við öll sín álver.

Svipað hefur verið uppi á teningnum í Þýzkalandi. Þar var raunar rifið álver flutt til Íslands og reist að nýju í Hvalfirði. Við erum eins konar ruslakista fyrir atvinnugreinar, sem ríku þjóðirnar vilja losna við, en geta hentað sérhæfðum byggðasjónarmiðum hér á landi.

Orkufrekur iðnaður hefur hröðum skrefum verið að flytjast frá Vesturlöndum til þriðja heimsins, því að Vesturlönd telja sér betur borgið á öðrum sviðum atvinnulífsins, í fjármálum, í þekkingariðnaði, í tölvutækni og ýmsum öðrum nútímalegum atvinnugreinum.

Álverið á Reyðarfirði á raunar sögulegar rætur að rekja til Grímsárvirkjunar, sem endur fyrir löngu var reist austur á Héraði fyrst og fremst til að framleiða byggingarvinnu handa kjósendum. Orkuverið varð frægt fyrir, að vatn skorti í steypuna, þegar það var reist.

Álver framkalla sveiflu. Mikinn mannskap þarf til að reisa þau. Á skömmum byggingartíma flæða peningar um héruð. Sú er ástæðan fyrir því, að þriðja heims stjórnmálamenn á borð við okkar iðnaðar- og utanríkisráðherra vilja troða þessu álveri upp á þjóðina.

Þegar framkvæmdum er lokið, fá tiltölulega fáir vinnu við rekstur álvera. Það er öldudalurinn eftir sveifluna, sem gleymist oft, þegar menn dreymir um orkufrekan iðnað. Miklu meiri atvinnu í héraði er hægt að framleiða með mörgum smáfyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Í arðsemisútreikningum verksmiðjunnar er ekki gert ráð fyrir umhverfissjónarmiðum, sem koma til dæmis í veg fyrir, að frægar náttúruvinjar verði lagðar í eyði. Þótt iðnaðar- og utanríkisráðherra sé hjartanlega sama um þær, mun þjóðin aldrei leyfa eyðingu þeirra.

Það er ekki nýtt, að helztu framsóknarflokksmenn þjóðarinnar vilji ganga á skítugum skónum yfir margt af því, sem þjóðinni er kærast. En þjóðin hefur nú vaknað til vitundar um raunveruleg verðmæti landsins og mun ekki lengur láta slíkt viðgangast baráttulaust.

Norsk Hydro hefur raunar áttað sig á, að fyrirtækið hefur engan sóma af aðild sinni á málinu og er smám saman að reyna að draga sig í hlé. Iðnaðar- og utanríkisráðherra sitja með hjálp nýs umhverfisráðherra uppi með steinbarn miðlunarlóns á Eyjabökkum.

Tregða óvina íslenzkrar náttúru við að játa fyrr en seint og um síðir minnkandi áhuga Norsk Hydro sýnir vel, að álverið á Reyðarfirði er feimnismál.

Jónas Kristjánsson

DV