Steindautt turnahverfi

Punktar

Turnarnir við Skúlagötu eru grófasta dæmið um þéttingaráráttu skipulagsfólks í Reykjavík. Þannig hefur íbúafjöldi Skuggahverfis verið tvöfaldaður. Ætla mætti samkvæmt trúboðsritum, að þar hefðu í kjölfarið siglt inn kaffihús, veitingahús og hverfisverzlanir. Svo er ekki. Eina fólkið á stjái eru túristar. Standir þú nálægt inngangi einhvers turnsins, þarftu að vera þar klukkustundum saman til að sjá mannaferð í innganginum. Fólkið, sem þarna býr, fer bara í lyftu niður í kjallara, setzt þar upp í einkabíl og fer sinna erinda í öðrum hverfum. Það er niðurstaðan af tilraun sanntrúaðra til að efla mannlíf með þéttingu byggðar.