Steiner í ráðherraskjóli

Greinar

Fjölmiðlum hefur tekizt með töngum að komast að margvíslegum leyndarmálum um afskipti lögreglu og stjórnvalda af þekktasta fíkniefnasala landsins. Á hverju stigi hafa valdamenn reynt að þyrla upp ryki til að koma í veg fyrir upplýsingar til almennings.

Tveir dómsmálaráðherrar hafa flækzt í málið, núverandi ráðherra og núverandi utanríkisráðherra. Meðal annars hefur komið í ljós, að núverandi dómsmálaráðherra gaf út villandi hártoganir um, að hann hafi ekki haft afskipti af leyndarmáli fíkniefnadeildar.

Yfirmaður og lögmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar höfðu samband við ráðherrana til að fá þá til að stuðla að óvenjulegri styttingu refsitíma fíkniefnasalans á þeim forsendum, að hann mundi í staðinn koma lögreglunni á spor annarrar fíkniefnasölu.

Verndarenglarnir fengur góðar viðtökur. Núverandi ráðherra sendi fullnustunefnd málið samdægurs. Hún lét samdægurs undan þrýstingi hans, sneri við fyrri úrskurði og heimilaði reynslulausn fíkniefnasalans að lokinni aðeins hálfri afplánun refsingarinnar.

Ekkert kom út úr uppljóstrunum fíkniefnasalans, sem greinilega hafði fíkniefnalögregluna að fífli. Eftir stóð leyndarmál, sem málsaðilar vildu ekki kannast við. Margt mannorðið hefur skaddazt á langvinnu undanhaldi þeirra fyrir spurningum fjölmiðla.

Málið sprakk í höndum verndarenglanna, þegar kom í ljós, að ný mál á hendur fíkniefnasalanum höfðu hreinlega týnzt á lögreglustöðunni í Reykjavík! Eftir það var aðeins tímaspursmál, hvenær sannleikurinn yrði togaður upp með töngum fjölmiðla.

Efnismesta uppljóstrunin er birting hluta úr skýrslu, sem gerð var um málið á vegum ríkissaksóknara. Núna stendur slagurinn innan Alþingis og utan um að fá opinberaða hina hlutana, sem enn eru taldir vera of mikið leyndarmál fyrir almenning.

Furðulegir hlutir koma fram í kaflanum, sem birtur hefur verið. Þar stendur, að fíkniefni hafi verið kæruleysislega varðveitt hjá lögreglunni, þau hafi jafnvel horfið og hafi sumpart verið notuð til að kaupa upplýsingar utan úr bæ um fíkniefnasölu.

Með því að birta bara hluta skýrslunnar stóð meðal annars til að halda áfram að hilma yfir aðild ráðherranna tveggja. Það tókst ekki, því að lögmaður fíkniefnadeildar játaði í DV í fyrradag, að hann hefði átt þátt í að ganga á fund ráðherra vegna málsins.

Á þessu stigi er ekki vitað, hversu víðtæk voru afskipti hvers málsaðila. Við sjáum þó óvönduð vinnubrögð lögreglumanna, sem létu fíkniefnasala draga sig á asnaeyrunum. Við sjáum líka afskiptalitla yfirmenn, sem létu undirmenn leika lausum hala.

Loks sjáum við ráðherra, sem að lítt athuguðu máli tók vel í málaleitan lögreglumannanna og fékk því samdægurs (!) framgengt, að bragð fíkniefnasalans gengi upp. Ráðherranum varð fótaskortur á geðþóttanum, sem löngum hefur verið dálæti slíkra.

Skýrast sjáum við þó skert mannorð allra þeirra, sem leynt og ljóst reyndu að hindra sannleikann og höguðu svörum sínum á þann hátt, að spyrjendur mundu fá ranga mynd af málsatvikum. Núverandi dómsmálaráðherra fer þar fremstur í flokki.

Fleiri maðkar kunna að vera í mysunni. Sumir leynast í óbirtum þáttum skýrslunnar. Og enn er ekki vitað, hvernig og hvers vegna skjölin týndust.

Jónas Kristjánsson

DV