Steingrímur eflir flugið.

Greinar

Steingrímur Hermannsson flugmálaráðherra hefur stuðlað að auknu flugi milli Íslands og Evrópu með því að ákveða að veita Arnarflugi leyfi til að reka áætlunarflug til tveggja borga í Evrópu, Zürich og Hamborgar eða Frankfurt.

Þetta flug mun auka ferðamannastrauminn, bæði til Íslands og frá. Það mun fjölga atvinnutækifærum í flugi, þótt nokkur hluti farþeganna verði frá Flugleiðum tekinn. Og það mun veita Flugleiðum bráðnauðsynlegt aðhald í Evrópuflugi.

Leyfisveitingin er svipaðs eðlis og leyfi þau, sem veitt hafa verið til áætlunarflugs innanlands á leiðum, sem Flugleiðir hafa ekki sinnt. Samkeppnin í millilandaflugi verður því aðeins óbein eins og í innanlandsflugi.

Að vísu getur verið, að Flugleiðir hlaupi upp til handa og fóta, alveg eins og þegar lcecargo var veitt leyfi til áætlunarflugs til Amsterdam. Flugleiðum kom ekki til hugar að fljúga þangað, fyrr en öðrum kom það í hug.

Svoleiðis viðbrögð eru dæmigerð hjá einokunarstofnunum, sem hafa glatað öllu framtaki til stækkunar flugkökunnar og gera bara eins og hinir, svo að hægt sé fyrst að drepa samkeppnina og síðan að leggja niður flugleiðina.

Ef Flugleiðir endurtaka nú sandkassaleikinn frá Amsterdam, er mjög athugandi að túlka það svo, að tímabært sé að veita öðrum flugfélögum í staðinn leyfi til að fljúga á núverandi einkaleiðum Flugleiða innan lands og utan.

Reynsla Bandaríkjamanna sýnir, að aukið flugfrelsi fjölgar farþegum, eykur atvinnu, bætir þjónustu, magnar framleiðni og vinzar úr hin miður reknu flugfélög. Ákvörðun Steingríms er dálítið skref í þá réttu átt.

Orsök og afleiðing.

Armar flokkseigendafélags og stjórnarsinna á landsfundi sjálfstæðismanna deildu hart um, hvort stjórnarmyndunin væri orsök eða afleiðing klofningsins í flokknum. Báðir aðilar höfðu rétt fyrir sér að hálfu og að hálfu ekki.

Hjá stjórnarsinnum er rétt, að rætur klofningsins eru miklu eldri. Milli stuðningsmanna Geirs og Gunnars hefur löngum verið grimm valdabarátta, sem meðal annars hefur komið fram í þeirri mynd, sem Morgunblaðið hefur árum saman gefið Gunnari.

Ekki má heldur gleyma því dæmi frá næstsíðasta landsfundi, er flokkseigendafélagið reyndi að fella Gunnar úr sæti varaformanns. Auk þess hefur það látið semja valdataflsbók til að sýna fram á áratuga Gunnarseitrun í flokknum.

Auk persónuhatursins vilja sumir sjá málefnaágreining að baki þess ágreinings, sem orðinn var fyrir stjórnarmyndun, og vísa meðal annars til leiftursóknarinnar. En satt að segja vegur sá ágreiningur ekki þungt á metunum.

Hjá flokkseigendum er rétt, að stjórnarmyndun Gunnars magnaði klofninginn, sem áður var, um allan helming. Þá varð til sú þrískipting flokksins, sem einkenndi ofsafengnar deilur nýafstaðins landsfundar og virðist óbrúanleg.

Þetta mál er gott dæmi um, að sannleikurinn er oft ekki hvítur og svartur, heldur í einhverjum afbrigðum af gráu. Klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum er sumpart jafngamall ríkisstjórninni og sumpart miklu eldri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið