Stíflan heldur enn

Greinar

Vinsældir Þjóðvaka, persónulegs flokks Jóhönnu Sigurðardóttur, í skoðanakönnunum er nýjasta dæmið í röð flokka, sem byggja fylgi sitt á vaxandi óánægju meðal kjósenda. Þeir telja sumir, að fjórflokkurinn gamli svari ekki þörfum sínum, og eru að reyna eitthvað nýtt.

Meirihluti kjósenda styður enn gömlu flokkana sína, sumir af meiri eða minni sannfæringu og aðrir af gömlum vana. Skoðanakannanir sýna, að smám saman saxast á þennan meirihluta. Þeim fjölgar, sem nefna nýja eða nýlega flokka eða eiga erfitt með að ákveða sig.

Þannig risu og hnigu flokkar Vilmundar Gylfasonar og Alberts Guðmundssonar og þannig er flokkur Jóhönnu að rísa í vetur. Stuðningsmenn hennar telja, að hún muni vinna gegn rótgróinni spillingu fjórflokksins og gegn óbeit hans á atlögum gegn vandamálum.

Jóhanna nýtur þess, að hún fékk sér ekki ríkisbíl, þegar hún var ráðherra, og misnotaði ekki ferðahvetjandi launakerfi ráðherra. Hún er talin heiðarleg. Það er stóra málið í hugum margra stuðningsmanna, en ekki stefnan, sem að mestu er gamalt tóbak frá eðalkrötum.

Svipað var uppi á teningnum, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóraefni. Kannanir sýndu strax, að nafn hennar dugði eitt, áður en vitað var um stefnuskrá eða önnur borgarfulltrúaefni Reykjavíkurlistans. Hún hefði náð meirihluta ein sér og án stefnu.

Kvennalistinn fellur ekki að þessari mynd Vilmundar, Alberts, Ingibjargar og Jóhönnu. Hann ber byrðar takmarkandi sjónarmiða, sem draga suma að, en fæla enn fleiri frá. Auk þess hafnar hann foringjadýrkun og neitar sér þar með um fókus, sem dregur kjósendur til sín.

Nýr og óráðinn kjósandi er ekki að biðja um nákvæmlega skilgreind sjónarmið pólitískra leiðtoga. Hann vill geta treyst dómgreind þeirra og heiðarleika og er sáttur við, að þeir útfæri þá persónueiginleika í hverjum þeim verkefnum og vandamálum, sem verða á vegi leiðtoga.

Þetta er lykillinn að tölum, sem við sjáum í miklum mæli í skoðanakönnunum og í minna mæli í kosningum. Tölurnar munu smám saman magnast, unz fjórflokkurinn hrynur eða einhverjir þættir hans taka þeim hamskiptum, að uppreisnarkjósendur fari að treysta þeim.

Í þessu skyni dugar ekki lengur að skipta um nafn eins og forverar Alþýðubandalagsins gerðu reglulega. Alþýðubandalaginu mun ekki gagnast núna að kalla sig Alþýðubandalagið og óháða, né heldur að kalla til þreytta verkalýðsrekendur, sem þegar voru merktir flokknum.

Fjórflokkurinn er fremur öruggur um sig, þrátt fyrir undirölduna í þjóðfélaginu. Sem dæmi má nefna, að ráðherrar hafa ekki afnumið ferðahvetjandi launakerfi sitt, þótt þeir geti ekki haldið uppi neinum vörnum í málinu. Þeir telja sig geta skriðið saman í nýja stjórn.

Sennilega eru tök fjórflokksins á þjóðfélaginu enn svo mikil, að hann geti haldið áfram að stjórna eftir kosningar. Það leysir hins vegar ekki vandann, heldur magnar fylkingu þeirra kjósenda, sem telja fjórflokkinn ekki svara þörfum sínum. Fyrr eða síðar hrynur kerfið.

Þegar fjórflokkur er staðinn að því að mynda nýjar og nýjar ríkisstjórnir á ýmsa vegu, kosningar eftir kosningar, án þess að nokkuð breytist, myndast ójafnvægi í stjórnmálaástandinu. Lengi getur fjórflokkurinn hamið ójafnvægið, en stíflan getur ekki haldið endalaust.

Af atferli fjórflokksins um þessar mundir má ráða, að hann telur brölt kjósenda í könnunum ekki hindra sig í að mynda enn eina hefðbundna stjórn eftir kosningar.

Jónas Kristjánsson

DV