Opnuð hefur verið á Akranesi alveg ljómandi góð matstofa, sem heitir Stillholt eftir samnefndri götu austarlega í bænum. Þessi veitingastofa kom mér mjög á óvart, enda efast ég um, að önnur 5000 manna bæjarfélög státi af slíku.
Stillholt gefur ekki eftir Laugaási og Horninu í Reykjavík og gerir raunar skömm til öllum þorra veitingahúsa höfuðborgarinnar. Þetta gildir um allt í senn, matreiðsluna, þjónustuna og andrúmsloftið.
Stillholt vantar aðeins léttu vínin. Væru þau, gæti ég bent Reykvíkingum á að bregða sér upp eftir með síðustu fer Akraborgar, rölta í veizlu í Stillholt, svo á ball, síðan niður á hótel og loks til baka með fyrstu ferð Akraborgar daginn eftir.
Slíkt væri óneitanlega skemmtileg tilbreytni frá hefðbundnu hjónaborðhaldi á veitingahúsum. Að vísu hef ég ekki hugmynd um, hvort hótelið á Akranesi er sómasamlegt eða ekki. Hugmyndin stendur náttúrlega og fellur með þeim lausa enda.
Æðri stílbrögð
Aðall Stillholts er nærfærin meðferð hráefna í eldhúsi og skilningur á nauðsyn þess að setja eldunartíma þröng mörk. Þarna verður jafnvel hamborgari ætur, svo ekki sé talað um æðri stílbrögð eins og humarskeljasoð út á humarhala.
Það, sem dregur Stillholt niður, er hin kórrétta fylgni við málstað franskra kartaflna, kokkteilsósu, dósagrænmetis og hrásalats. Þetta meðlæti endurtekur sig í sífellu með nærri öllum réttum þessarar annars ágætu veitingastofu.
Vendipunktur Stillholts er hinn sami og hjá Laugaási. Egill Egilsson eigandi stendur sjálfur við pottana og hefur auga með gestunum. Sú er eina leiðin til að halda háum gæðum í matreiðslu og þjónustu veitingahúsa, annarra en dýrra hótela.
Stillholt samræmi létta nútímamatreiðslu við hefðbundna íslenzka rétti á borð við plokkfisk, gellur, saltkjöt og saltfisk. Þessir réttir eru ekki á fastaseðlinum, en eiga jafnan fulltrúa á matseðli dagsins.
Síðarnefndi seðillinn heitir raunar “meðmæli kokksins” og hefur oftast að geyma fjóra aðalrétti með súpu á undan. Þar eru sjávarréttir í hávegum hafðir, sem og á fastaseðlinum, þar sem m.a. má sjá kræklingasúpu og djúpsteiktan hörpudisk.
Gamlar ljósmyndir
Stillholt tekur um 56 manns í sæti í tveimur jafnstórum sölum. Innri salnum má loka til einkasamkvæma. Báðir salirnir eru rúmgóðir, snyrtilegir og hreinlegir, málaðir í léttum og ljósum litum og minna örlítið á Hornið.
Einkenni innréttingarinnar eru hinar gömlu ljósmyndir frá Akranesi. Í innri sal eru blóm á borðum, speglar, sem stækka stofuna, og þakgluggalýsing. Pinnastólarnir eru með þægilegum sessum. Í bakgrunni er notaleg tónlist, sem minnir líka á Hornið.
Þjónustan í Stillholti var þægileg og vinsamleg og virtist vera það jafnt við alla gesti. Hér hefur bætzt við enn ein menningarvinin í eyðimörk djúpsteikingarhúsa, þar sem eigendur í forstjóraleik skáka fram fýlulegum og timbruðum píum.
Spergilsúpa
Spergilsúpa fylgdi réttum dagsins að þessu sinni. Hún var óvenju góð og var greinilega búin til á staðnum, en ekki hellt úr dós eða pakka. Meira að segja franskbrauðsneiðin, sem fylgdi, var betri en venja er hér á landi. Sérpöntuð kostaði spergilsúpan 850 krónur.
Humarhalar
Ristaðir humarhalar í skelinni voru fremur smávaxnir, en góðir og meyrir undir tönn. Þeir voru bornir fram í eftirréttaglasi með sítrónubáti, tómatbáti, paprikuhring, ristuðu brauði og smjöri. Punkturinn yfir i-ið var þó skemmtilega bragðsterkt soðið af humarskeljum, sem er skynsamlegri ídýfa en bráðna smjörið. Þarna var um náttúrulega matreiðslu að ræða. Verðið var 2.400 krónur sem forréttur.
Fiskrúllur
Gratineraðar lúðurúllur voru of þurrar. Þarna endurtók sig soðið af humarskeljunum, sem gaf einkennisbragð ostasósunnar. Þessi sósa var mjög sterk og óvenjuleg og hefði sómt sér vel, ef sjálf lúðan hefði líka verið góð. Með réttinum fylgdu hvítar kartöflur með steinselju og hrásalat. Hvort tveggja var gott, einkum hrásalatið. Verðið var 2.400 krónur.
Gellur
Djúpsteiktar gellur voru á matseðli dagsins. Þær voru mjúkar og góðar, en steikarhjúpurinn var fullmikið áberandi. Með fylgdi ágætt hrásalat, alveg sérstaklega, óvenjulega góð kokkteilsósa og óþarfar franskar kartöflur, ekki brenndar. Verðið var 2.400 krónur að súpu innifalinni.
Hamborgari
Hamborgari með frönskum, ananashring og tómatsósu var furðulega ljúffengur, mjúkur og bragðgóður, alger andstæða hinna bragðlausa pappaspjalda, sem hér á landi eru kölluð hamborgarar. Hins vegar var lítið varið í þær frönsku og tómatsósan var andstyggilega dísæt. Verðið á þessari útgáfu hamborgara var 2.030 krónur.
Kjúklingur
Grillsteiktur kjúklingur var á matseðli dagsins. Ekkert var við hann að athuga, enda var hann mátulega grillaður, nákvæmlega laus frá beinunum, en ekkert meira eldaður. Þessum góða kjúklingi hæfði vel hin góða kokkteilsósa og hrásalatið, sem áður hefur verið sagt frá. Verðið var 4.500 krónur, hið sama og á fastaseðlinum.
Lambahryggur
Ofnsteiktur lambahryggur indien var of mikið steiktur, grár í gegn, en meyr og sæmilega góður á bragðið. Kartöflurnar voru hæfilega létt brúnaðar. Karríhrísgrjónin voru góð, svo og karrísósan. Verðið var 4.100 krónur.
Turnbauti
Tournedos Stillholt var frábær. Hann kom lítið steiktur, eins og um var beðið, undurmeyr og bragðmikill. Með honum fylgdi góð svepparjómasósa, áðurnefnt hrásalat, franskar kartöflur og einnig óþarfar belgbaunir. Verðið var 6.300 krónur.
Barnaís
Barnaísinn er ekki í frásögur færandi að öðru leyti en því, að hann var þrenns konar og einn hlutinn var bláberjaís, ljómandi góður. Verðið var 450 krónur.
Kaffi
Kaffið í Stillholti var ekkert sérstakt. Það var ekki reiknað sérstaklega til verðs eftir mat, en sérpantað kostaði það 400 krónur. Vatnið með matnum var volgt.
Hagstætt verð
Meðalverð tveggja rétta máltíðar af matseðli dagsins var 3.100 krónur. meðalverð þrettán forrétta, súpa og eggjarétta var 1.300 krónur, nítján aðalrétta úr fiski eða kjöti 4.100 krónur og fjögurra eftirrétta 700 krónur. Þrírétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta 6.100 krónur.
Stillholt er í verðflokki með hinum hliðstæðu og ágætu veitingastofum í Reykjavík, Laugaási og Horninu, töluvert ódýrari en hinar hvimleiðu steikarbúlur landsins.
Eitt af allra beztu
Stillholt fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sex fyrir þann hlut þjónustu, sem veittur er (af sjö mögulegum) og átta fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er sex eða hin sama og Hornsins, Laugaáss, Loftleiða og Nausts. Aðeins Holt, Saga og Versalir eru hærri.
Það er því ástæða til að óska Skagamönnum til hamingju með Stillholt.
Jónas Kristjánsson
Vikan