Stjarnan og kóngafólkið

Greinar

Almannaharmur er meiri í Bretlandi og víðar en hann var við andlát og jarðarfarir Viktoríu Bretlandsdrottningar og Winstons Churchills. Díana prinsessa var stjarna, sem stendur nær hjarta almennings en frægustu og merkustu persónur aldarinnar í Bretlandi.

Viktoría var um aldamótin talin helzta þjóðargersemi Breta og Churchill hélt uppi brezkri sjálfsvirðingu í síðari heimsstyrjöldinni. Hún var vinsælust kóngafólks og hann var vinsælastur mikilmenna. Í gamla daga var fræga fólkið af öðrum hvorum þessara toga.

Nútíminn hefur búið til nýja tegund frægðarfólks, stjörnurnar. Fyrstar voru kvikmyndirnar og hljómplöturnar og síðan tók sjónvarpið við. Af þessum toga frægðarfólks voru Marilyn Monroe og Elvis Presley, sem gerðu það merkast um ævina að höfða til almennings.

Fólk sér sig og speglar sig miklu fremur í Öskubuskum, sem verða prinsessur heldur en í kóngafólki og mikilmennum. Viktoría og Churchill voru talin til hinna, það er að segja yfirstéttarinnar, en Díana er talin hafa verið ein af okkur, það er að segja almennings.

Staðreyndin er að vísu sú, að Díana fæddist með silfurskeið í munni og lifði alla tíð fjarri veruleika almennings. Hún var ung dregin úr heimi auðbarna inn í mölétinn kóngaheim Windsoranna og flúði síðan þaðan inn í heim glaumgosanna eins og Jacqueline Kennedy.

Windsorarnir voru berskjaldaðir fyrir sjónvarpstækni Díönu. Karl prins reyndi að vísu að feta í fótspor hennar með opinskáu persónuviðtali í sjónvarpi, en var of grunnmúraður í formfastri, stilltri og allt að því dauflegri framgöngu til að halda til jafns við stjörnuna.

Nú kvartar almenningur um, að kóngafólkið sé svo harðbrjósta, að því vökni ekki um auga við andlát og útför prinsessunnar. Þetta er þó fólk, sem hefur verið kennt að gráta ekki undir neinum kringumstæðum, heldur bera höfuðið hátt með stífri efri vör að brezkum hætti.

Á skammri ævi tókst prinsessunni að rústa virðingu brezku Windsoranna. Vinsældir konungdæmisins hröpuðu í sama mæli og vinsældir hennar jukust. Áður vildu þrír af hverjum fjórum Bretum varðveita konungdæmið, en núna vill það tæpast annnar hver Breti.

Af reynslunni má ráða, að það sé í senn of freistandi og of hættulegt fyrir kóngafólk að tengjast stjörnudómi nútímans. Bezt er fyrir það að halda sig til hefðbundins hlés, svo sem gert hefur verið í Hollandi, Noregi og Svíþjóð, en fara ekki að taka þátt í að leika stjörnur.

Við höfum séð hvernig fór fyrir Grimaldi-ættinni í Mónakó, þegar það fékk stjörnu í sínar raðir. Við sjáum hvernig dönsku prinsarnir eru að sökkva í glaumgosalíf, sem veldur vinsældum til skamms tíma, en býður hættunni heim. Stjörnustand hentar ekki kóngafólki.

Brezkur almenningur bar virðingu fyrir Viktoríu og Churchill, en dýrkaði þau ekki. Fólk dýrkar hins vegar prinsessuna og grætur fögrum tárum við fráfall hennar. Þrátt fyrir uppruna sinn og ævi var hún talin vera ein af fjölskyldunni og raunar einn nánasti ættingi fjöldans.

Stjörnudómur er merkilegt og lítt rannsakað fyrirbæri. Það er nánast ævintýralegt, að óhamingjusamur glaumgosi skuli geta fengið eftirmæli, sem fela í sér, að hún hafi verið John Fitzgerald Kennedy, Iknaton faraó og heilög Jóhanna af Örk í einni og sömu persónu.

Ef til vill var það hin augljósa óhamingja prinsessunnar, sem olli því, að almenningur sá hana í spegli sápuóperanna og saknar hennar sem spegils síns.

Jónas Kristjánsson

DV