Landinu hefur á þessu ári verið stjórnað í Garðastræti. Þar hafa komið saman fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og sent ríkisstjórninni skilaboð um, hvernig hún skuli framkvæma vilja aðila vinnumarkaðsins.
Fyrsta ákvörðun Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins var tekin í febrúar og hin síðari nú í desember. Í bæði skiptin hefur hin formlega ríkisstjórn tekið vel fyrirmælum aðila vinnumarkaðsins og lofað að haga efnahagsstefnunni í samræmi við þau.
Ýmis fyrirmælanna eru á sviðum, sem til skamms tíma voru fremur talin heyra undir hina pólitískt kjörnu fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi og ríkisstjórnina, sem Alþingi myndar um meirihluta. Þetta vald virðist smám saman vera að leka til aðila vinnumarkaðsins.
Ríkisstjórnin hefur tekið að sér að draga úr lántökum sínum í útlöndum, reyna að sýna aðhald í peningamálum og í verðskrám opinberra aðila og landbúnaðarins, halda gengi krónunnar föstu og neita kjúklinga- og eggjabændum um að komast á ríkisframfæri.
Forsætisráðherra hefur tekið fram, að erfitt sé að fara eftir öllum þessum fyrirmælum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, en reynt verði að gera það í öllum liðum, enda fari þau að flestu leyti saman við eigin áhugamál ríkisstjórnarinnar.
Svo vel vill til, að bæði í febrúar og nú í desember hafa fyrirmæli heildarsamtaka vinnumarkaðsins verið af hinu góða. Þau hafa falið í sér viðleitni við að tryggja góðan þjóðarhag, svo að lífskjör megi batna án þess að afkomu atvinnulífsins sé stefnt í hættu.
Í febrúar var á þennan hátt lagður grundvöllur að verulegum lífskjarabótum og nú í desember að sérstökum lífskjarabótum hinna lægst launuðu. Samningurinn í febrúar fól í sér litla verðbólgu og nýi samningurinn virðist ekki heldur munu fela í sér mikla verðbólgu.
Að þessu sinni er sérstaklega mikilvægt, að samið var um, að hinir betur settu héldu lífskjarabótum ársins 1986, en fengju ekki auknar kjarabætur árið 1987 umfram verðbólgu ársins, svo að allt svigrúmið yrði notað til að bæta lægstu launin í þjóðfélaginu.
Um þessa síðustu niðurstöðu er þjóðarsátt, einhver merkasta þjóðarsátt síðustu ára. Það er einmitt vegna hennar, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið geta sent ríkisstjórninni fyrirmæli um, hvernig hún eigi að standa að stjórn efnahagsmála á næsta ári.
Hitt er svo enn óvíst, hvernig ríkisstjórninni muni ganga að standa við loforð sín. Hún er veiklunduð, svo sem bezt kemur fram í, að vinnumarkaðurinn skuli þurfa að knýja hana til góðra verka. Þetta veiklyndi kemur vel fram í fjárlagafrumvarpi hennar.
Ef ríkisstjórnin ætlar að standa við gefin loforð um litla verðbólgu, fast gengi og litlar lántökur í útlöndum, þarf hún að skera niður fyrirhugaðar framkvæmdir opinberra aðila í frumvörpum til fjárlaga og lánsfjárlaga. Því miður virðist lítil hreyfing vera í þá átt.
Jafnvel þótt ríkisstjórninni takist að verða fullgildur aðili að þjóðarsáttinni, sem varð til í Garðastræti um síðustu helgi, er æskilegt, að við völdum taki í vor ríkisstjórn, sem hefur bein í nefinu til að halda uppi góðri efnahagsstjórn, án þess að vera neydd til þess.
Hversu góðar reglur sem hafa nú komið úr Garðastræti er eðlilegt, að framvegis komi frumkvæði í málum þjóðarhags frá húsum við Lækjartorg og Austurvöll.
Jónas Kristjánsson
DV