Stjórnarandstaða í sókn.

Greinar

Stjórnarandstæðingar eru í mikilli sókn í Sjálfstæðisflokknum, Alþýðuflokkurinn er farinn að hjarna við og fylgissig Alþýðubandalagsins heldur áfram. Þetta eru breytingarnar, sem komu í ljós í nýjustu könnun blaðsins á fylgi flokkanna.

Aðrir þættir eru óbreyttir, þar á meðal hinn mikli fjöldi, sem ekki getur eða vill taka afstöðu til flokkanna. Þriðjungur hinna spurðu sagðist vera óákveðinn í afstöðu til þeirra. Flokkarnir höfða ekki til þessa fjölmenna liðs.

Mikill meirihluti hinna óákveðnu mun þó fara á kjörstað í næstu alþingiskosningum, því að þáttaka í kosningum reynist jafnan vera um 90% hér á landi. Þetta er fólkið, sem sveiflast milli flokka og ræður úrslitum kosninga.

Engin ástæða er til að ætla, að hinn óákveðni hópur muni skipa sér á flokkana í sömu hlutföllum og hinir ákveðnu hafa þegar gert. Í aðdraganda kosninga er oftast einhver pólitísk sveifla í gangi, sem beinir stórum hluta hinna óákveðnu í einn farveg, frekar en annan.

Þess vegna er ekki ástæða til að taka bókstaflega hina hlutfallslegu skiptingu hinna ákveðnu milli flokka eða þingmannatöluna, sem reiknuð er út frá því. Menn mega hafa hliðsjón af slíkum tölum, en ekki taka trú á þær.

Miklu fremur ættu forustumenn hvers flokks að horfa til hins fjölmenna hóps óákveðinna og reyna að skilja, hvernig standi á stærð hans og hvernig hægt sé að nálgast hann, viðkomandi flokki til hagsbóta.

Kosningabarátta við þessar aðstæður er orðin að áhættusömum slagsmálum um fylgi hinna óákveðnu. Í aðdraganda kosninga hljóta flokkarnir í vaxandi mæli að reyna að tefla stjórnmálunum í stöðu, sem auðveldi þeim að ná til þessa hóps.

Í sjö skoðanakönnunum Dagblaðsins & Vísis frá síðustu alþingiskosningum hefur fylgi Framsóknarflokksins verið einna stöðugast. Hann hafði nú síðast 23% hinna ákveðnu, svipað þeim 25% atkvæða, sem hann fékk í kosningunum.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur líka reynzt traust á þessu tímabili. Í könnun eftir könnun segist um það bil helmingur hinna spurðu styðja flokkinn. Það er mun öflugra en þau 37% atkvæða, sem hann fékk í kosningunum.

Ef flokkurinn finnur leið til að ná svipuðu eða hærra hlutfalli af hinum óákveðnu, er hann á grænni grein. Hann getur barizt fyrir hreinum meirihluta í kosningunum. En hvaða Sjálfstæðisflokkur verður það?

Ef til vill verður það ekki hreinn Geirsflokkur, en flest bendir til, að það verði eindreginn stjórnarandstöðuflokkur. Nýjasta könnunin, sem birtist í blaðinu í dag, sýnir mikla sókn og meirihlutafylgi stjórnarandstæðinga í flokknum.

Spurningin er þá sú, hvort flokknum tekst sem slíkum að halda fylgi þess minnihluta, sem innan flokksins fylgir ríkisstjórninni. Örugglega þarf stjórnkænsku til að ná slíkum árangri í næstu kosningum.

Tölur kannana blaðanna sýna hægfara rýrnun fylgis Alþýðubandalagsins frá því í fyrravor. Og síðasta könnunin sýnir snöggan fjörkipp í fylgi Alþýðuflokksins, sem hafði búið við fylgisdoða á öllu síðasta ári.

Þannig má lesa ýmsan fróðleik úr niðurstöðutölum skoðanakannana af þessu tagi. Þær gera bæði stjórnmálamönnum og kjósendum hægar um vik að átta sig á flóknum straumum stjórnmálanna milli kosninga.

Jónas Kristjánsson.

DV