Stjórnarskrá Evrópu

Punktar

Angus Roxburgh segir í BBC, að Evrópusambandið sé komið að enn einum tímamótunum. Nú er það stjórnarskráin, sem á að negla niður fyrir jól, þótt einstakar ríkisstjórnir séu afar andvígar ýmsum þáttum uppkastsins, er samkomulag hefur náðst um að leggja fram. Fréttaskýrendur efast sumir um, að sambandið standist þessa raun. Minnast má þó, að þetta gamla fríverzlunarbandalag hefur nokkrum sinnum áður hlotið hliðstæða eldskírn, svo sem þegar komið var á fót seðlabanka Evrópu og evrunni, sérstakri herstjórn og friðargæzlu framhjá Atlantshafsbandalaginu, sameiginlegu vegabréfi, evrópskum yfirdómstóli og sérstöku þingi með beinni aðild almennings í Evrópu.