Stjórnlaust Írak

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að algert stjórnleysi ríki í Írak. Enginn skipuleggjandi stríðsins virðist hafa gert sér neina grein fyrir eftirmálunum. Hinir bandarísku landstjórar fari ekki út úr húsi nema í skjóli herflokka. Þeir hitti enga, sem geta hjálpað, ekki einu sinni ráðamenn hjálparstofnana. Hann segir, að Sameinuðu þjóðirnar hafi reynslu í rekstri hernuminna svæða og gætu gert mikið gagn í Írak. Bandaríkjastjórn hati Sameinuðu þjóðirnar hins vegar svo mikið, að hún geti ekki hugsað sér aðstoð þaðan. Pfaff segir líka, að svokallað vegakort um stofnun Palestínuríkis sé ekkert annað en bandarísk sýndarmennska til að afla stuðnings við stríðið gegn Írak. Vegakortið verði alls ekki framkvæmt, heldur muni Bandaríkjastjórn áfram styðja hryðjuverka- og útþenslustefnu Ísraelsstjórnar.