Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman verið pólitískur armur nokkurra gamalgróinna einokunar- og fáokunarfyrirtækja, sem auðguðust á sínum tíma af forgangi að takmörkuðum gæðum þess tíma, svo sem bankalánum ríkisbankanna á neikvæðum vöxtum.
Fyrir þessa þjónustu hafa stórfyrirtækin haldið Sjálfstæðisflokknum fjárhagslega á floti. Þess vegna eru fjármál flokka lokuð bók á Íslandi, þótt þau séu opin í nágrannaríkjum okkar beggja vegna Atlantshafsins. Sjálfstæðisflokkurinn hindrar birtingu þessara gagna.
Aukið réttlæti í þjóðfélaginu að vestrænni fyrirmynd hefur dregið úr ofurvaldi stórfyrirtækjanna. Innleiðing raunvaxta í hagkerfinu leiddi til falls fyrirtækjahringsins að baki Framsóknarflokksins, hringsins sem áður var kenndur við Samband, en nú við smokkfisk.
Sjálfstæðisflokknum hefur gengið betur en Framsóknarflokknum að standa vörð um hagsmuni hinna fjárhagslegu umbjóðenda sinna. Honum hefur tekizt að framkvæma svokallaða einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem einkavinavæðingu í þágu svonefnds kolkrabba.
Frægðardæmið var úthlutun síldar- og fiskimjölsverksmiðja ríkisins til vildarvina Sjálfstæðisflokksins, þótt hærra tilboð hefði borizt í þær úr annarri átt. En nú er Davíð reiður, því að flokknum hefur mistekizt að stýra einkavæðingu Fjárfestingarbankans í þessa átt.
Af því tilefni hafa enn einu sinni verið rifjaðir upp kaflar úr fyrirgreiðslu- og misnotkunarsögu íslenzkra stjórnmála. Þekktur lögmaður hefur rakið í langri blaðagrein, hvernig misnotað bankakerfi kolkrabbans hrakti Stöð 2 í faðm bandarísks alvörubanka.
Eftir langt hlé, sem varð Sambandinu að falli, er einkavæðing ríkisfyrirtækja að taka við af neikvæðum vöxtum fyrri tíma sem aðferð kolkrabbans til nýrrar auðsöfnunar. Þótt stjórnmálaarmi hans hafi orðið fótaskortur í Fjárfestingarbankanum, gefast honum önnur færi.
Davíð hefur sagt, að áfallið í Fjárfestingarbankanum geti leitt til breyttra aðferða við að selja afganginn af bankanum. Með þessu er hann að segja, að hann stjórni bananaríki, þar sem leikreglum sé breytt eftir veðri og vindum til að gæta hagsmuna umbjóðenda hans.
Reynt verður að haga sölu Landssímans á þann veg, að hann renni saman við Íslandssíma eða falli á annan hátt í faðm kolkrabbans. Sérstök áherzla verður lögð á að ná á sitt vald ljósleiðara símans og gera hann að hornsteini ljósvakamiðils, sem leysi Ríkisútvarpið af hólmi.
Á sama tíma eru fyrirtæki á vegum kolkrabbans, einkum Eimskipafélagsins, skipulega að ná fiskveiðikvóta á sitt vald með kaupum á ráðandi hlutum í margs konar fyrirtækjum í sjávarútvegi. Með sama áframhaldi verður kolkrabbinn senn að stærsta sægreifa landsins.
Það fer í taugar þeirra, sem stjórna samkeyrslu Sjálfstæðisflokksins og kolkrabbans, að til séu aðilar í þjóðfélaginu, sem geti boðið í hluta einkavæðingarinnar og þar með hækkað gjaldið, sem kolkrabbinn þarf að borga fyrir hana. Því geta menn ekki dulið gremju sína.
En ný færi munu gefast kolkrabbanum, þar sem þjóðin hefur sætt sig við, að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni landinu með langvinnum stuðningi Framsóknarflokksins. Fólkið í landinu flækist ekki fyrir einkavinavæðingunni, heldur eru það leikreglur vestræns hagkerfis.
Meðan stjórnmálaarmur kolkrabbans nýtur trausts til að fara með ríkisvaldið skapast ótal tækifæri til að framkvæma einkavæðinguna sem einkavinavæðingu.
Jónas Kristjánsson
DV