Stjórnvöld sitja eftir

Greinar

Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum kemur skýrt fram í afnámi fjárveitinga til náttúruverndarsamtaka, rétt eins og stefna hennar í siðamálum vísinda er að leggja niður vísindasiðanefnd. Hún vonar, að óþægindin hverfi, ef hún þrengi hag stofnana eða slátri þeim.

Vandinn er sá, að ný fyrirbæri, sem stofnuð eru til að vera þæg og góð, njóta einskis trausts úti í bæ, hvort sem það er vísindasiðanefnd ríkisstjórnarinnar eða þögull fínimannsklúbbur, sem þykist styðja náttúruvernd undir forustu fyrrverandi landbúnaðarráðherra.

Óbeit ríkisstjórnarinnar á umhverfisvernd er mikil og endurspeglar raunar skoðanir háværs minnihluta meðal þjóðarinnar, sem lítur á málefnið sem eins konar helgislepju eða fílabeinsturn, svo notað sé orðalag eins þeirra á ráðstefnu um framtíð lifibrauðs Húsavíkur.

Í þessum hópi eru fjölmennir verktakar á borð við þann, sem stjórnar Kópavogi og vill ólmur láta reisa blokkir við Elliðavatn. Þar er á ferðinni fyrirhyggjulaus framtakssemi, svo notað sé orðalag Orra Vigfússonar, þegar hann gagnrýndi sjókvíaeldi á Austfjörðum.

Fyrirhyggjulaus framtakssemi er einmitt það, sem hefur hingað til einkennt Íslendinga eins og flestar þriðja heims þjóðir, sem eru að reyna að brjótast til álna. En við verðum að kunna að breyta viðhorfum okkar, þegar við höfum komizt í álnir og getum farið að njóta lífsins.

Meirihluti þjóðarinnar er samkvæmt skoðanakönnunum kominn á þá skoðun, að tími sé kominn til að leggja niður hamslausa framtakssemi og fara að gæta langtímahagsmuna okkar af að vernda umhverfið fyrir verkfræðingum og pólitískum verkefna-útvegsmönnum.

Milli meirihlutans og minnihlutans í umhverfismálum er mikið djúp, sem verður seint brúað. Ríkisstjórnin hefur í heild tekið sér eindregna stöðu með minnihlutanum og verður vonandi látin gjalda þess í næstu kosningum. Sigurför umhverfisverndar verður ekki hamin.

Þrýstingurinn er mikill og vaxandi. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að raflínur beri að grafa í jörð en ekki hengja upp í stálturna í óbyggðum. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að velja verður um, hvort Mývatn á að vera náttúruparadís eða skammvinnt verksmiðjuþorp.

Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að engin sérstök þörf er á að malbika niður í fjöru og reisa íbúðarturna við náttúruvinjar, þar sem nóg rými er fyrir slíkt annars staðar. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að haga verður búfjárbeit í samræmi við burðargetu landsins.

Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að brautargengi þjóðarinnar í framtíðinni fer eftir allt öðrum atvinnugreinum en stóriðju. Og sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að landið er ekki eign okkar, heldur í varðveizlu okkar fyrir hönd komandi kynslóða. Sjálfbær hugsun er að síast inn.

Við þurfum í bili að sæta umhverfisráðherra sem seldi sannfæringu sína fyrir embættið og gengur svo mikinn berserksgang í andstöðu við umhverfið, hvort sem það er Mývatn eða Eyjabakkar, að hún fær upp á móti sér opinbert ráð, sem skipað er henni til ráðgjafar.

Svo tamt og ljúft er ráðherranum að fara með rangt mál, að hún fer létt með að segja útlend umhverfissamtök styðja stefnu sína og ber því síðan við, að hún hafi hitt borðalagða menn á umhverfisfundinum í Haag og talið, að þar færu talsmenn umhverfissamtaka.

Feiknarmikið verk er eftir við að skipta út stjórnmálamönnum og fá til starfa aðra, sem vilja starfa með meirihluta þjóðarinnar að verndun umhverfisins.

Jónas Kristjánsson

DV