Stöðvið þessa menn.

Greinar

Byggingamenn njóta þeirra forréttinda að þurfa ekki að semja um kjör við hina raunverulegu vinnuveitendur, það er að segja húsbyggjendur. Þeir semja við verkstjóra sína, svonefnda meistara, sem lifa á prósentum af kaupi sveinanna.

Í hvert sinn sem sveinar og meistarar semja, er niðurstaðan reiknuð inn í uppmælinguna og lendir beint á herðum húsbyggjenda. Meistarar hafa ekki annarra hagsmuna að gæta en þeirra, að tekjur þeirra hækka í sama hlutfalli og sveinanna.

Það liggur því í hlutarins eðli, að Meistarasamband byggingamanna er ekki aðili að Vinnuveitendasambandinu og á þar ekki heima. En húsbyggjendur eru ekki heldur í Vinnuveitendasambandinu og hafa raunar engan til að gæta hagsmuna sinna.

Í núverandi kjaraviðræðum hafa sveinar og meistarar samið um að nota þessi forréttindi til að bæta kjör sín umfram aðra og á kostnað húsbyggjenda. Þetta hefur tafið samninga Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins.

Allsherjarverkfallið stafar af því, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið ráða ekki við byggingamenn. Friður væri nú á vinnumarkaðinum, ef byggingamenn hefðu ekki ákveðið að misnota aðstöðu sína til sjálftektar á kjarabótum.

Forkastanlegt er, að þjóðfélagið skuli ekki geta varið sig og húsbyggjendur gegn sjóræningjaaðgerðum eins og einkasamkomulagi byggingamanna. Þar verður ríkisstjórnin að koma til skjalanna og beita bráðabirgðalögum.

Bann við einkasamningi sveina og meistara um sjálftekt á kjarabótum umfram aðra er verðugt viðfangsefni bráðabirgðalaga, þótt slík lög hafi verið sett í óhófi á öðrum sviðum. Nú er ekki bara þörf, heldur nauðsyn.

Ríkisstjórnin þarf ekki aðeins að gæta hagsmuna varnarlausra húsbyggjenda, heldur einnig hinna almennu þjóðfélagshagsmuna, að samdrátturinn í efnahagslífinu komi mildar niður á þeim, sem miður mega sín, en á hinum, sem betur mega.

Þegar þjóðartekjur minnka um 2-3% á einu ári, ætti öllum að vera ljóst, að lífskjör hljóta að rýrna, hversu mjög sem menn blása á kjaramálafundum. Spurningin er aðeins sú, hvort kjararýrnunin eigi að vera jöfn eða misjöfn.

Almennur vilji er í þjóðfélaginu fyrir því, að á samdráttartíma séu ekki aðstæður til að bæta kjör þeirra, sem betur eru settir. Þvert á móti sé sanngjarnt, að þeir taki á sig þyngri hluta byrðanna en láglaunafólkið.

Í kjaramálaumræðu síðustu daga hefur tölunni 8.000 krónum stundum verið slegið fram sem eins konar girðingu milli mánaðarlauna láglaunafólks og annarra. Og uppmælingarmenn byggingaiðnaðarins eru langt fyrir utan þessa girðingu.

Oft hefur verið reynt að gæta hagsmuna láglaunafólks sérstaklega í kjarasamningum, en yfirleitt ekki tekist, til dæmis af því að hálaunastéttirnar njóta forréttinda, svo sem aðstaða byggingamanna sýnir bezt.

Eins og fyrri daginn virðist munu reynast erfitt að vernda láglaunafólkið í þessari lotu kjarasamninga. Í stórum dráttum fær það sömu prósentuhækkun kaups og aðrir, sem þýðir í raun sömu prósentu kjararýrnunar og aðrir.

Við slíkar aðstæður er hneykslanlegt og blóðugt, að forréttindastéttir, sem taka virkan þátt í gjaldeyrisnotkun og öðru lífskjarakapphlaupi, skuli geta fyllt aska sína á kostnað hinna fátækari. Því verður að stöðva byggingamennina.

Jónas Kristjánsson.

DV