Stöðvum rányrkjuna strax

Greinar

Íslenzk fiskiskip hafa þrefaldað rækjuafla sinn á Flæmingjahattinum frá því í fyrra og tífaldað hann síðan 1993. Er nú svo komið, að þau veiða um það bil helming alls rækjuaflans á þessum miðum og eru einu fiskiskipin, sem stunda þar stjórnlausa ofveiði.

Íslenzku rányrkjarnir geta ekki reiknað með stuðningi ríkisins til framhalds ofveiðinnar. Öll ríki önnur en Ísland hafa samþykkt veiðistjórn og kvótakerfi og munu fara að beita áhrifum sínum til að knýja íslenzk stjórnvöld til að fara að viðurkenndum leikreglum.

Nú þegar er framferði íslenzkra fiskiskipa á Flæmingjahattinum notað gegn úthafsveiðum Íslendinga á öðrum miðum, svo sem í Smugunni. Ennfremur eru að rísa sjónarmið um höft á fiskinnflutning frá ríkjum, sem neita að fallast á sjálfbært hóf á veiðum.

Íslendingar hafa horfið úr fararbroddi þeirra þjóða, sem vilja vernda fiskstofna til að tryggja framtíð fiskveiða, í fararbrodd þeirra þjóða, sem engu eira í stundargræðgi. Álit umheimsins á Íslandi á þessu sviði hefur hrunið með rányrkju okkar á Flæmingjahattinum.

Íslenzku fulltrúarnir í Fiskveiðinefnd Norður-Atlantshafs vildu aflakvóta á þessum miðum, en allir aðrir sóknarkvóta. Þegar sjónarmið Íslands náði ekki fram að ganga, ákvað sjávarútvegsráðuneytið að hunza niðurstöðuna vegna þrýstings úthafsveiðiútgerða.

Talsmenn rányrkjunnar segja, að hún leiði til þess, að í nýju samkomulagi um veiðar á Flæmingjahattinum verði að taka tillit til aukinnar veiðireynslu íslenzkra skipa á svæðinu og auka kvótann, sem kemur í hlut Íslands. Þetta er auðvitað siðlaust með öllu.

Önnur hagsmunaríki munu heldur ekki sætta sig við, að Ísland kræki í aukinn kvóta með ofveiði í trássi við alla aðra. Þau munu taka saman höndum um, að hlutur Íslands verði ekki meiri en hann hefði orðið, ef það hefði frá upphafi tekið þátt í veiðistjórn á svæðinu.

Ekki verður séð, að það samrýmist heildarhagsmunum Íslands sem útflutningsríkis fiskafurða að fresta lengur að stöðva rányrkjuna á Flæmingjahattinum. Framhald hinna stjórnlausu veiða verður fljótlega til að baka okkur meira tjón en sem svarar ávinningi veiðanna.

Í fyrsta lagi verður reynt að útiloka Ísland með valdi frá þessum miðum og öðrum miðum, sem Fiskveiðinefnd Norður-Atlantshafsins hefur afskipti af. Í öðru lagi munu sum ríki hefja ofveiði á karfa á Reykjaneshrygg. Í þriðja lagi verða sett höft á íslenzkan fiskútflutning.

Miklu heppilegra er, að íslenzk stjórnvöld sjái að sér í tæka tíð, svo að ekki þurfi að standa andspænis niðurlægingunni, sem felst í samtökum annarra ríkja gegn Íslandi sem sjóræningjaþjóð. Við munum í náinni framtíð þurfa á að halda ímynd ábyrgrar fiskveiðiþjóðar.

Um allan heim er að rísa hreyfing umhverfisverndar, sem krefst þess, að jafnvægi sé í umgengni manna við náttúruna, þannig að ekki sé tekið meira en sem svarar endurnýjunargetu hennar. Slík samtök eru í vaxandi mæli að beita þrýstingi á ríki og risafyrirtæki.

Ofurkappsveiðar okkar stoða lítt, ef aðrar þjóðir neita að kaupa sjávarafurðir okkar. Við þurfum vegna útflutningshagsmuna okkar að halda friðsamlegu sambandi við ríki og risafyrirtæki. Það getum við ekki með því framferði, sem við höfum sýnt á Flæmingjahattinum.

Nú þegar ber stjórnvöldum að stöðva hinar skammsýnu veiðar Íslendinga og gerast aðili að fjölþjóðlegu samkomulagi um veiðistjórn á Flæmingjahattinum.

Jónas Kristjánsson

DV