Stólar skipta öllu máli

Greinar

Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri Þjóðhagsstofnunar, hefur nú tvisvar reynt að mynda nýja ríkisstjórn. Fyrri tilraunina gerði hann, þegar Þorsteinn Pálsson hafði umboð til stjórnarmyndunar, og hina síðari er hann að gera núna, þegar Jón Hannibalsson hefur umboðið.

Margt er svipað með báðum tilraunum Jóns Sigurðssonar. Í báðum tilvikum hefur hann reynzt vera hinn ókrýndi leiðtogi viðræðnanna, þótt aðrir hafi að formi til haft forustu. Hann hefur reynt að berja saman niðurstöðu eins og gamall oddamaður úr verðlagsnefndum.

Í fyrra skiptið lék Kvennalistinn hlutverk vandræðabarnsins. Honum var falið að koma með tillögur, sem þá voru kallaðar kröfur. Í þetta sinn hefur Alþýðuflokkurinn leikið hlutverkið. Hann hefur lagt fram tillögur, eins og Kvennalistinn gerði í fyrra skiptið.

Þá lögðu Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur lítið til málanna og létu sér nægja að hlusta. Fyrst kinkuðu menn kolli, en síðan hristu þeir hausinn. Nú leggja Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lítið til málanna og hafa til skamms tíma látið sér nægja að hlusta.

Þá snérust viðræður þriggja stjórnmálaflokka um, hvort Kvennalistinn væri fáanlegur ókeypis til að punta upp á nýja útgáfu af viðreisnarstjórn. Í ljós kom, að listinn vildi eitthvað fyrir snúð sinn. Þess vegna fór út um þúfur sú tilraun til stjórnarmyndunar.

Í tilrauninni, sem stendur yfir þessa daga, snúast viðræðurnar um, hvort Alþýðuflokkurinn sé fáanlegur ókeypis til að blása lífsanda í líkið af ríkisstjórninni, sem nú er við völd. Í ljós er að koma, að Alþýðuflokkurinn þarf lítið fyrir sinn snúð. Nema ráðherrastóla.

Vandamálin úr fyrri tilrauninni hafa verið afnumin með nýju slagorði, sem heitir fjölskyldustefna. Aðilar viðræðnanna hafa tekið orðinu fegins hendi, því að það felur í sér, að hægt er að fjalla um óþægilegt mál á þægilegan hátt með almennu og verðlausu snakki.

Alþýðuflokkurinn gafst fyrst upp á umbótum í landbúnaði. Síðan gaf hann eftir lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Kaupleiguíbúðirnar lágu óafgreiddar, þegar þetta var skrifað. Þá hafði ekki heldur verið tekið á tillögum Alþýðuflokks um skatta upp í allt sukkið.

Núna undir helgina er að koma í ljós, hvort Morgunblaðið fær strax þá ríkisstjórn, sem það pantaði í leiðara, þegar hófst önnur tilraun Jóns Sigurðssonar. En Morgunblaðsmynztrið getur orðið síðari niðurstaða, þótt ekki takist að vefa það saman í þessari umferð.

Gangur viðræðnanna hefur verið svipaður undir merki Jóns Hannibalssonar og var hjá Þorsteini Pálssyni. Samningamenn hafa aflað sér upplýsinga um stefnuskrár flokkanna og almennt látið eins og þeir séu álfar út úr hól eða nýkomnir til jarðarinnar frá Mars.

Eftir tvær vikur í þessari umferð er nú að koma í ljós kjarni málsins, sem er, hvort Steingrímur Hermannsson sættir sig við að verða utanríkisráðherra. Ef hann gerir það ekki, þarf boltinn að rúlla eitthvað áfram, unz aðrir málsaðilar komast að, hver ræður.

Steingrímur á fjóra mismunandi kosti á fjögurra flokka vinstri stjórn, með eða án Borgaraflokksins. Hann getur þurft að veifa því sverði dálítið meira til að láta Sjálfstæðisflokkinn átta sig á, að heppilegt sé að fórna forsæti Þorsteins fyrir hægri stjórn.

Stjórnarviðræður verða marktækar, þegar þær hætta að snúast um fjölskyldustefnu og fara að snúast um, hverjir verða ráðherrar og hver verður í forsæti.

Jónas Kristjánsson

DV