Stór, gömul og þreytt

Greinar

Hross eru tryggð á grundvelli upplýsinga um nafn, lit og aldur. Ef brúnn hestur á svipuðum aldri drepst í hesthúsahverfinu, getur tryggingafélagið ekki efazt um, að það sé hinn tryggði hestur. Þetta veldur svo háu tjónahlutfalli, að hrossatryggingar eru mjög dýrar.

Ef eigandi reiðhrossa hefur samband við tryggingafélag og óskar eftir að tryggja hross á grundvelli upplýsinga um frostmerkingu, þannig að útilokað sé að rugla saman hrossum, getur hann ekki fengið lægra iðgjald á grundvelli minni áhættu af hálfu tryggingafélagsins.

Þetta litla dæmi um kölkun tryggingafélaga sýnir í hnotskurn, hvernig hin stóru, gömlu og þreyttu tryggingafélög landsins nýta sér ekki tryggingastærðfræði til að flokka niður áhættu, svo að unnt sé að bjóða fólki lægri tryggingar, ef það er með sitt á hreinu.

Frægari dæmi og dýrari eru á öðrum sviðum. Tryggingafélög flokka húsnæði mjög gróflega í áhættuflokka, en gera engan greinarmun á mikilli og lítilli brunahættu. Þannig er algengt, að frystihússtjórar, sem engum eldvörnum sinna, greiði sömu iðgjöld og aðrir.

Þegar svo kviknar í frystihúsunum, þar sem eldvarnir eru í megnasta ólagi, þrátt fyrir ótal aðvaranir eftirlitsaðila, greiðir tryggingafélagið hið sama og ef allt hefði verið í stakasta lagi. Þetta veldur því, að frystihússtjórar sjá sér ekki hag í að borga fyrir eldvarnir.

Sama er að segja um misjafnan frágang húsa gagnvart foktryggingu. Til eru opinberir staðlar um, hvernig eigi til dæmis að ganga frá þakjárni, svo að það fjúki ekki. Sumir fara eftir þessum reglum og aðrir ekki, en allir borga sama iðgjaldið og allir fá tjónið greitt.

Talsmenn hinna stóru, gömlu og þreyttu tryggingafélaga landsins segja, að ekki sé aðstaða til að skoða eldvarnir í hverju húsi, og virðast þar með ekki taka mark á eldvarnaeftirlitinu. Útlenda tryggingafélagið, sem hingað er komið, lætur hins vegar skoða hvert hús.

Eðlileg samkeppni tryggingafélaga, sem ekki hefur verið hér á landi til skamms tíma, á að hafa áhættuflokkun svo nákvæma, að tryggjendur sjái sér hag í því að hafa allt í lagi til þess að lenda í sem lægstum iðgjaldaflokki og vera öruggir um, að tryggingafélagið borgi tjón.

Ef útlenda tryggingafélagið nær í betri viðskiptavini með því að bjóða þeim lægri iðgjöld á þeim forsendum, að minni líkur séu á tjóni hjá þeim en hjá hinum, sem eru með allt niður um sig, eru markaðslögmálin í fyrsta sinn farin að njóta sín í tryggingum hér á landi.

Markaðslögmál í tryggingum hafa einkum tvíþætt gildi. Í fyrsta lagi græðir viðskiptavinurinn sjálfur á lækkuðum iðgjöldum. Og í öðru lagi græðir þjóðfélagið í heild á því, að tjón minnkar, þar sem ástand hinna tryggðu hluta verður betra en ella hefði orðið.

Innreið Skandia í íslenzkan heim stórra, gamalla og þreyttra tryggingafélaga verður vonandi til þess að breyta langvinnri fáokun í eðlilega samkeppni. Það verður þá gott dæmi um gróða þjóðfélagsins af því að opna íslenzkan markað fyrir erlendri samkeppni.

Við getum gert okkur í hugarlund, hvernig margt mundi lagast hér á landi, ef erlend samkeppni ryddi fáokun í burtu á fleiri sviðum, svo sem í bönkum, olíufélögum og flutningum á sjó, svo ekki sé talað um einokunina, sem er í flugi og innflutningsbannið í landbúnaði.

Samkeppnin getur leitt til, að tryggingafélög hrökkvi af svefni, hætti að hossa brúnum hrossum og síbrennandi frystihúsum og fari að stunda alvörutryggingar.

Jónas Kristjánsson

DV