Norðmenn eru slyngir kaupsýslumenn. Í samningum hafa þeir lag á að kreista sítrónuna til fulls. Þetta kemur vel fram í viðræðum þeirra við Íslendinga um Jan Mayen. Þar hyggjast þeir ná sem mestu fyrir sem minnst.
Svo einlæg er harka hinna norsku samningamanna og þeim svo eðlileg, að þeir blikna ekki, þegar þeir reyna að draga viðsemjendur sína á asnaeyrunum. Þeir þykjast aldeilis undrandi á því, að Íslendingar vilji ekki taka við gjöfum á silfurdiski.
Fyrir fundina, sem nú standa yfir í Reykjavik, létu norsk stjórnvöld leka því, að þau væru fús til að létta á hinni hörðu Jan Mayen línu. Þetta virtist í fyrstu nokkurt fagnaðarefni, enda raunveruleikinn þá ekki kominn í ljós.
Samkvæmt lekanum áttu Íslendingar að fá 200 mílna lögsögu til Jan Mayen, hálfar nytjar norskrar efnahagslögsögu við Jan Mayen og yfirstjórn loðnuveiða á svæði Íslands og Jan Mayen að verulegu leyti, ef þeir samþykktu hina norsku lögsögu.
Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra beit á agnið. Hann sagði í fjölmiðlum, að norsk fiskveiðilögsaga kæmi til greina við Jan Mayen, ef ýmsum skilyrðum væri fullnægt. Norska efnahagslögsögu nefndi hann þó ekki.
Steingrímur bætti svo gráu ofan á svart með því að segja, að íslenzka krafan um samstjórn Norðmanna og Íslendinga á fiskveiðum umhverfis Jan Mayen sé algerlega óraunhæf. Þarna endurtekur hann órökstuddar fullyrðingar Norðmanna.
Út af fyrir síg getur verið, að Steingrímur trúi síbylju Norðmanna um samstjórnina. En hann má ekki vera svo lélegur samningamaður, að hann gefi sér þessa trú sem forsendu í upphafi viðræðna við harða samningamenn.
Steingrímur hefði heldur átt að líta á þessa trú sem mikilvæga tilslökun af sinni hálfu, sem yrði vegin og metin á móti öðrum tilslökunum af hálfu Norðmanna. Þannig fara hinir norsku samningamenn að í svipuðum málum.
Afleiðingin af tvöföldum fótaskorti Steingríms á tungunni er sú, að hinir norsku samningamenn hafa styrkzt í þeirri trú, að þeir geti haldið áfram að neita að ræða norska lögsögu við Jan Mayen öðru vísi en sem forsendu.
Ekki bætir úr skák, að flokksblað íslenzkra og norskra Alþýðuflokksmanna tekur í morgun í forsíðuleiðara upp hanzkann fyrir Norðmenn og gagnrýnir harðlega ýmsar röksemdir, sem haldið hefur verið fram af Íslands hálfu.
“Jan Mayen skiptir engu höfuðmáli …”, segir í lok þessarar einstæðu greinar. Þá vita hinir norsku samningamenn það. Enginn vafi er á, að þeir gleðjast mjög af fótaskorti Steingríms og rugli skjólstæðings síns, Alþýðublaðsins.
Enda kemur það í ljós á fundunum, að norsku samningamennirnir kannast ekki við lekann, sem þeir stóðu fyrir. Þeir eru enn að þjarka um, að miðlína verði að gilda milli Íslands og Jan Mayen. Þetta kallast nú að kreista sítrónuna vel!
Dagblaðið tók í gær undir það sjónarmið Norðmanna, að til greina gæti komið að taka fiskveiðimálin á undan öðrum þáttum, reyna að leysa þau nú til bráðabirgða, en fresta hinum þáttunum til betra tóms.
Dagblaðið varaði þó við bráðabirgðasamkomulagi, er túlka mætti sem skref í átt til norskrar efnahagslögsögu við Jan Mayen. Þessar aðvaranir, sem voru meginefni leiðarans, hafa greinilega ekki verið ástæðulausar. Norðmenn eru stórhættulegir í samningum.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið