Stóri bróðir góði

Greinar

Í tilraunum ríkisstjórnarinnar til ofstjórnar og óhófsafskipta í þjóðlífinu má sjá rauðan meginþráð, sem kemur hvað eftir annað fram í vef efnahagsaðgerða hennar, þótt hann sé að öðru leyti ruglingslegur og geri forstjóra Sambandsins sjóveikan. Um þetta má taka dæmi.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða niður rafmagn til fiskvinnslustöðva. Niðurgreiðslan nemur að meðaltali um 25% af rafmagnsverðinu og á að minnka heildarútgjöld fiskvinnslufyrirtækja um 0,5% að meðaltali. Útreikningur niðurgreiðslunnar verður afar flókinn.

Með þessu er ríkisstjórnin að veita fram læk, sem síðar getur orðið að stóru fljóti. Fyrirmyndin er sótt úr stjórn ríkisins á landbúnaði, sem gerður hefur verið að varanlegum öryrkja í atvinnulífinu. Með niðurgreiðslunni á að koma í veg fyrir grisjun í greininni.

Ríkisstjórnin er í öðru lagi að velta fyrir sér að bæta skaða fyrirtækja, sem verða fyrir barðinu á hvalveiðistefnu sjávarútvegsráðherra. Ætlunin er að múta bönkum til að veita rækjuverksmiðjum afurðalán til að endurmerkja vöruna fyrir nýja markaði í stað hinna töpuðu.

Rækjustuðningurinn er gott dæmi um stigmagnað þrep í ofstjórn ríkisins. Fyrst setur stjórnin fyrirtækin á höfuðið með hvalveiðistefnu sjávarútvegsráðherra. Síðan hættir hún ekki við þá stefnu, heldur stigmagnar tjónið með því að greiða það úr vasa skattgreiðenda.

Í þriðja lagi er ríkisstjórnin að koma upp nýjum milljarðasjóði hlutafjár til að taka við fyrirtækjum, sem eru of illa á vegi stödd til að fá peninga úr hinum nýlega milljarðasjóði atvinnutryggingar. Markmiðið er, að engin fyrirtæki gefi upp öndina á landsbyggðinni.

Þetta er líka dæmi um stigmögnun. Fyrst gerir ríkisstjórnin útflutningsfyrirtæki gjaldþrota með því að neita þeim um eðlilegt verð fyrir erlendan gjaldeyri, sem þau afla. Eftir langvinna fastgengisstefnu þjóðnýtir hún svo líkin með því að láta opinbera aðila kaupa hlut í þeim.

Í raun hefur þetta svo skemmtileg hliðaráhrif. Til dæmis verður hinn nýi Hlutafjársjóður að skuldbinda sig til að verðtryggja í sex ár allar skuldir Kaupfélags Dýrfirðinga við Samband íslenzkra samvinnufélaga og að greiða allar skuldirnar að sex árunum liðnum.

Fjórða dæmið er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja hálfum milljarði úr ýmsum sjóðum til að auðvelda loðdýrabændum að framleiða og flytja út skinn, sem seld eru fyrir kvartmilljarð króna á ári. Hin opinbera aðstoð er því meiri en árlegt framleiðsluverðmæti.

Þetta er eitt alvarlegasta dæmið um stigmögnun á óhófsafskiptum ríkisins. Fyrst ginnir ríkið bændur til að fara út í loðdýrabúskap, þótt fróðir og reyndir menn hafi varað við offorsi í þeim efnum. Þegar allt er komið í hönk, bjargar ríkið fórnardýrum sínum fyrir horn.

Árum saman hefur verið vitað, að loðdýrabúskapur er að verða ríkisrekin byggðastefnugrein á Norðurlöndum. Árum saman hefur líka verið vitað, að herferðir gegn notkun skinna voru að ná árangri í Vestur-Evrópu og mundu síðan gera það í Norður-Ameríku.

Engin skilyrði voru til mikillar útþenslu loðdýraræktar hér á landi. En Stóri bróðir lét ekki að sér hæða. Með fé skattgreiðenda að baki sér ákvað ríkið að byggja upp loðdýrarækt með handafli. Það situr nú uppi með rústir, sem eru verri en hinn hefðbundni landbúnaður.

Þetta eru dæmi um, að ofstjórn og óhófsafskipti ríkisins skaða atvinnulífið fyrst og að svo mætir ríkisstjórnin vandanum með því að reisa velferðarríki fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV