Stóri bróðir í Tölvunefnd

Greinar

Tölvunefnd telur sig vera að varðveita friðhelgi einkalífs manna með því að standa í vegi fyrir, að símnotendur geti fengið fullnægjandi upplýsingar á símreikningum. Það er einmitt í verkahring nefndarinnar að gæta þess, að tölvur séu ekki gerðar að Stóra bróður.

Svo virðist sem Tölvunefnd hafi áhyggjur af uppljóstrunum um framhjáhald í síma eða af einhverjum öðrum erfiðleikum innan fjölskyldna. Ekki getur hún verið að vernda venjulegt fólk, sem hringir í annað fólk af eðlilegum ástæðum, misjafnlega markvisst og dýrt.

Sá, sem hringir eða hringir ekki í annað fólk, þarf ekki á hugleiðingum Tölvunefndar að halda, heldur vill hann vita, hvernig símreikningur hans verður til, svo sem í hvaða númer hann hefur hringt, svo að hann viti, hvort reikningurinn sé réttur. Svona einfalt er það.

Ef símreikningar framtíðarinnar skýra aðeins, hvenær hringt var og hve lengi, verður takmarkað gagn að sundurliðun símreikninga. Á bandarískum símreikningum eru skráð símanúmerin, sem hringt er, svo og í Bretlandi og víðar í Evrópu, hvað sem Tölvunefnd segir.

Ef Evrópubandalagið er með þessi mál til umfjöllunar á sömu nótum og Tölvunefnd hér á landi og á svo mikilvægan hátt, að Tölvunefnd telur sig þurfa að feta í fótspor bandalagsins, er Stóri bróðir örugglega farinn að banka óþægilega á dyr okkar, með aðstoð Tölvunefndar.

Afskiptasemi Tölvunefndar af sundurliðun símreikninga er gott dæmi um, hvernig varðveizla lítilmagnans gegn Stóra bróður breytist í andhverfu sína, þegar góðviljaðir embættismenn eru að reyna að ákveða, hvað sé símnotendum og einkalífi þeirra fyrir beztu.

Að þessu leyti minnir Tölvunefnd mjög á Stóra bróður sameykið Verðlagsstofnun-Neytendasamtök, er hefur reynt að hamla gegn tæknilegri þróun, sem er neytendum til hagsbóta. Minnisstæð er annars vegar strikamerkingin og hins vegar krítarkortin.

Nokkrar matvörubúðir hafa tekið upp á að merkja vöruverð skýrum stöfum á hillur í stað smárra stafa á límdum verðmiðum. Þær nota strikamerkingar til að láta viðskiptavininn hafa sundurliðaða renninga við kassann. Þeir vita nú loks, hvað þeir hafa keypt.

Tvíeykið heimtaði, að haldið yrði áfram verðmerkingu vörunnar, sem hefði eytt sparnaðinum af hinni nýju tækni. Reynslan sýnir, að viðskiptavinir telja sig ekki þurfa á slíku að halda, heldur eru ánægðir með hinar auknu upplýsingar, sem nýja tæknin veitir.

Tvíeykið hefur líka verið að juða í að koma á tvenns konar verði í verzlunum eftir því, hvort greitt sé með peningum eða ávísun annars vegar og krítarkorti hins vegar. Markmið Stóra bróður er, að hinir fyrri greiði ekki óbeina vexti af viðskiptum hinna síðari.

Á sama tíma hefur komið í ljós, að sum fyrirtæki telja sér beinlínis hag af hinum einföldu og traustu kortaviðskiptum og veita jafnvel afslátt í hina áttina, það er að segja ef menn borga með korti. Því er farsælast, að markaðurinn fái að ráða þessari ferð.

Tvíeykið Verðlagsstofnun-Neytendasamtök vitnar til Svíþjóðar alveg eins og Tölvunefnd vísar til Evrópubandalagsins. Hvort tveggja eru þetta öflug vígi Stóra bróður, sem reynir að hafa vit fyrir fólki á sem flestum sviðum. Hagsmunir fóks eru hins vegar allt aðrir.

Með afskiptum af símreikningum er Tölvunefnd að skaða símnotendur eins og tvíeykið skaðar neytendur með afskiptum af strikamerkjum og krítarkortum.

Jónas Kristjánsson

DV