Stóri bróðir stækkar

Greinar

Osama bin Laden og fylgismönnum hans hefur óvart tekizt að breyta stjórnarháttum í Bandaríkjunum. Repúblikönsk stjórn George W. Bush hefur látið af störfum og við tekið demókratísk stjórn George W. Bush með afskiptasamari og dýrari Stóra bróður en hin fyrri.

Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september hefur Bush fallið frá ýmsum ráðagerðum, sem þar í landi eru taldar eiga heima til hægri í pólitísku litrófi, svo sem minni ríkisútgjöldum og lægri sköttum og minni afskiptum ríkisins yfirleitt af frelsi fólks til að fara sínu fram.

Gagnvart útlöndum er breytingin ekki áhrifaminni. Í stað afskiptaleysis af utanríkismálum, sem jaðraði við fyrirlitningu á bandamönnum ríkisins, svo sem neitun á aðild að ýmsum fjölþjóðasamningum, er bandaríska ríkið skyndilega komið á kaf í hefðbundin utanríkismál.

Bandaríkin eru jafnvel farin að greiða niður skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar, sem hægri sinnaðir repúblikanar hafa hingað til hatað eins og pestina. Með sama áframhaldi samþykkja Bandaríkin um síðir jarðsprengjusáttmálann og stríðsglæpadómstólinn.

Heima fyrir kemur stefnubreytingin fram í ýmsum atriðum, sem snerta líf manna. Menn munu eiga erfiðara með að halda fjármálum og ferðalögum sínum leyndum fyrir Stóra bróður. Farið er að tala um nafnskírteini, sem hingað til hafa verið eitur í beinum þjóðarinnar.

Faldar myndavélar á mikilvægum stöðum, skyldunotkun nafnskírteina og víkkað svigrúm opinberra aðila til að hnýsast í fjármál fólks og notkun þess á símum og netþjónustu hafa hingað til ekki verið á stefnuskrá repúblikana. En nú hefur veruleiki tekið við af draumi.

Bandaríkin eru fjarri því að verða neitt lögregluríki í kjölfar hryðjuverkanna. Þau eru hins vegar að færast nær stjórnarháttum, sem hafa lengi þótt sjálfsagðir víðast hvar í Vestur-Evrópu, þar sem nafnskírteini hafa lengi þótt eðlileg og faldar myndavélar eru mikið notaðar.

Þar sem hættan á hryðjuverkum hefur tekið við af hættunni á hefðbundinni styrjöld sem nærtækasta öryggisvandamál vestrænna þjóða, er eðlilegt, að Stóri bróðir verði fyrirferðarmeiri en áður. Róttæk frjálshyggja hentar ekki þjóðfélagi á nýrri öld hryðjuverka.

Bandaríkin og önnur vestræn ríki verða að finna nýtt jafnvægi milli afskipta og afskiptaleysis hins opinbera. Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum án þess að ýkja vandann. Ekki er ástæða til að gleðja hryðjuverkamenn með því að fara á taugum út af þeim.

Á tímabili var ástæða til að óttast, að stjórnvöld í Bandaríkjunum hefðu látið taka sig á taugum. Ýmsar tilskipanir í kjölfar hryðjuverkanna voru eins og pantaðar af Osama bin Laden. Flug var stöðvað og flugvöllum lokað, stóra flugvellinum í Washington vikum saman.

Drákonskar aðgerðir af slíku tagi voru til þess fallnar að magna efnahagsáföll Bandaríkjanna í kjölfar hryðjuverkanna. Þær voru svo harðar, að erfitt er að meta, hvort það voru hryðjuverkin sjálf eða viðbrögð stjórnvalda, sem ollu meiri samdrætti efnahags Bandaríkjanna.

Mikilvægt er, að stjórnvöld á Vesturlöndum grípi ekki til gagnaðgerða sem skaða þjóðarhag, trufli ekki samgöngur og aðra innviði kerfisins, heldur leyfi gangverki efnahagslífsins að hafa sinn gang. Slíkt sparar ómælda peninga og lýsir um leið frati á hryðjuverkamenn.

Sterkasta vopn Vesturlanda í vörninni gegn hryðjuverkum er traust gangverk efnahagslífsins og varfærni við að efla afskiptasemi Stóra bróður af lífi fólks.

Jónas Kristjánsson

DV