Stóri vinningurinn

Greinar

Margir ætluðu sér að þéna góðan vel með lítilli fyrirhöfn á dögum heimsmeistaramótsins í handbolta. Verð á gistingu hækkaði víða. En útlendingarnir létu ekki hlunnfara sig. Þeir sátu heima og horfðu á leikina í sjónvarpi, en íslenzkir áhorfendur stóðu undir mótskostnaði.

Feginsalda fór um þjóðfélagið og sérstaklega um Suðurnes í þessum mánuði, þegar fréttist, að stjórnendur Atlantsáls-hópsins væru að dusta rykið af fyrri ráðagerðum um álver á Keilisnesi. Menn sáu í rósrauðum hillingum, að sjálfvirk hagsveifla riði yfir þjóðfélagið.

Að minnsta kosti tvisvar á ári fréttist af hugleiðingum um kaup á íslenzku rafmagni um sæstreng til Skotlands og meginlands Evrópu. Alþýðuflokkurinn framleiddi eina slíka frétt í kosningabaráttunni til að sýna fram á dugnað sinna manna við að útvega happdrættisvinninga.

Endalaus röð áætlana um ver af ýmsu tagi þekja bókahillu væntanlegrar iðnþróunarsögu. Sumt var reynt eins og áburðarverksmiðjan og saltver, en annað rykféll, svo sem sykurver og kísilver. Við erum alltaf reiðubúin að trúa á ný töfraver til að leysa vandamál okkar.

Um daginn var stungið gat á eina af þrálátari blöðrum af þessu tagi. Þá var birt skýrsla, sem hafði þá sérstöðu meðal skýrsla af þessu tagi, að höfundurinn ætlaðist greinilega ekki til að fá framtíðartekjur af hönnun fleiri slíkra skýrsla. Það var skýrslan um frísvæði í Keflavík.

Stundum er eins og tilvera okkar snúist um væntingar um uppgrip. Smugan átti í fyrra að bjarga þjóðarbúskapnum og svo voru það Svalbarðamið. Í ár eru það Síldarsmugan og Reykjaneskarfinn, sem leika sama hlutverk. Við erum alltaf að spá í stóra vinninginn.

Ef til vill erum við nær veiðimannaþjóðfélaginu en aðrar auðþjóðir heims. Við erum kynslóð eftir kynslóð orðin vön því, að aflahrota eða blessað stríðið leysi vandræðin, sem skapast af því, hve erfitt við eigum með að ná endum saman í hversdagsleika efnahagslífsins.

Við gerum hins vegar ekkert til að búa til happdrættisvinninga eða aflahrotur. Við ræktum ekki veiðilendurnar eins og rótgrónir veiðimenn gera. Við ofveiðum árlega í stað þess að byggja upp stóra stofna, sem geti fært okkur aflahrotur eftir nokkur ár eða áratugi.

Við vorum lengi að láta okkur dreyma um frísvæði á Suðurnesjum. Á sama tíma varðveittum við einokun í afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Þegar það var svo afnumið um síðir, var orðið alltof seint að efna til frísvæðis, því að offramboð var orðið af þeim.

Við erum núna í þeirri dæmigerðu stöðu, að stjórnmálamenn dreymir upphátt um svokallaða upplýsingahraðbraut, er henti Íslendingum sem gáfaðri og menntaðri þjóð. Á sama tíma koma stjórnvöld í veg fyrir hana með því að leggja ekki vegi á þessu mikilvæga sviði.

Þvaðrið um upplýsingahraðbrautina er í líkingu við það, að uppi væru ráðagerðir um stórkostlega vöruflutninga um Lyngdalsheiði milli Þingvalla og Laugarvatns, en engum dytti í hug, að gera þyrfti nýjan veg og varanlegan yfir heiðina. Jarðsambandið skortir alveg.

Tómt mál er að tala um upplýsingahraðbraut Íslands nema stjórnvöld tryggi mikla og stöðuga, hnökralausa og álagsþolna bandbreidd í samgöngukerfinu. Þessa dagana er upplýsingahraðbraut Íslands lakasta upplýsingaslóð Vesturlanda og líkist Lyngdalsheiðarveginum.

Þannig forðumst við að rækta garðinn okkar daglega, en látum okkur dreyma um stóra vinninginn. Við lifum utan raunveruleikans í von um skjóttekinn gróða.

Jónas Kristjánsson

DV