Stórkarlinn frá Vilníus

Greinar

Formaður Alþýðuflokksins er litríkur stjórnmálamaður. Einkum þess vegna verður hans saknað, þegar hann yfirgefur fremstu víglínu stjórnmálanna með því að hætta formennsku í Alþýðuflokknum og lýsa yfir, að þetta sé síðasta kjörtímabil sitt á Alþingi.

Tvo kosti aðra hefur Jón Baldvin Hannibalsson, sem greina hann frá ýmsum öðrum þeim, sem verið hafa og eru fremstir í stjórnmálum landsins. Í fyrsta lagi er hann óvenjulega snarpgreindur. Og í öðru lagi er hann blessunarlega laus við hefnigirni og refsingaráráttu.

Á hinn bóginn var hann oft ábyrgðarlaus í persónulegri framgöngu, fór stundum einkar frjálslega með staðreyndir og gerði lítið í að koma fram þeim stefnumálum Alþýðuflokksins, sem greina hann frá öðrum flokkum. Segja má, að hann hafi daðrað við yfirborðsmennsku.

Gallar hans sem stjórnmálamanns komu vel fram, þegar hann var ráðherra og þar af leiðandi hálfgerður embættismaður. Hann skortir ýmsa eiginleika, sem embættismönnum eru oftast eignaðir. Sem utanríkisráðherra olli hann hvað eftir annað ringulreið í ráðuneytinu.

Ekki má heldur gleyma frjálslegri umgengni hans við reglur um risnu, sem oftar en einu sinni varð fræg í fjölmiðlum, svo og misnotkun hans á ferðahvetjandi tekjupóstum. Siðareglur hans sem ráðherra voru í ólagi. Hann ruglaði saman fjármálum sínum, flokks og þjóðar.

Hins vegar koma kostir hans vel fram, þegar hann stundar burtreiðar á Alþingi. Þar er hann í essinu sínu, nýtur snarprar greindar sinnar og bregður glaðbeittur vopnum sínum. Eins og með ásum í Valhöll eru svo allar væringar gleymdar í veizlu að kvöldi.

Öfugt við ýmsa aðra frammámenn í stjórnmálum heldur Jón Baldvin enga skrá yfir þá, sem kunna vitandi eða óvitandi að hafa gert honum skráveifu á stjórnmálaferlinum. Hann hefur aldrei legið í símanum til að fá þriðju aðila til að taka þátt í refsiaðgerðum gegn slíkum.

Þannig er Jón Baldvin hjartahreinn, þótt hann sé gallaður sem stjórnmálamaður, svo sem hér hefur verið rakið. Drenglyndi hans og kjarkur komu að góðum notum, þegar hann átti persónulega þátt í að koma á lýðræði í Eystrasaltslöndunum við hrun Sovétríkjanna.

Þegar búið er að kortleggja kosti og galla formannsins, gnæfir þetta eina atriði yfir önnur og tryggir honum sess, ekki í Íslandssögunni, heldur í stjórnmálasögu aldarinnar. Hann svaraði fyrstur neyðarkalli Eystrasaltsríkjanna og fór sjálfur á vettvang til Vilníus.

Meðan utanríkisráðherrar annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins rumdu sitt ha og humm, gekk Jón Baldvin Hannibalsson fram fyrir skjöldu og eyðilagði möguleika annarra vestrænna stjórnmálamanna til að stunda hina venjulegu iðju þeirra að japla, jamla og fuðra.

Hin hvassa framganga hans á örlagastundu í sögu Eystrasaltsríkjanna var í samræmi við fyrri áherzlur hans á því sviði. Hann var þá sjálfum sér samkvæmur og óð þannig í málið, að önnur Vesturlönd urðu að fylgja á eftir. Þetta var hápunktur stjórnmálaferils hans.

Framganga Jóns Baldvins í málefnum Eystrasaltsríkjanna kom Íslandi á blað í stjórnmálasögu 20. aldar. Það er meira en hægt er að segja um flesta aðra ráðamenn á Íslandi á undanförnum árum. Þegar á hólminn var komið, reyndist hann stórkarl, en hinir smámenni.

Eftir tilraun til heiðarlegrar kortlagningar á ferli fráfarandi formanns Alþýðuflokksins er niðurstaðan sú, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

Jónas Kristjánsson

DV