Sovézkir harðlínumenn klúðruðu hallarbyltingu sinni. Þeir höfðu rangar hugmyndir um viðhorf og viðbrögð manna og skildu ekki hinn almenna stuðning við Borís Jeltsín Rússlandsforseta. Þess vegna náðu þeir ekki þeim tökum á þjóðfélaginu, sem þeir reiknuðu með.
Þegar Jeltsín Rússlandsforseti steig upp á skriðdrekann á mánudag urðu þáttaskil í byltingunni. Við það varð hann að segli mótþróans. Þá minnkuðu líkur á, að valdaránsmenn gætu á ný stillt Gorbatsjov upp sem leppi, svo sem þeir virðast hafa talið sig mundu geta.
Vandræði hallarbyltingarmanna stöfuðu af, að ekkert stóð að baki þeim nema ógnin ein. Þeir voru ekki studdir neinni marktækri hugmyndafræði. Þeir voru ekki studdir neinni marktækri efnahagsstefnu. Þeir höfðu ekkert marktækt fylgi meðal þjóða sambandsríkisins.
Aðfaranótt miðvikudags krömdust rússneskir borgarar undir skriðdrekum í Moskvu. Það var meira áfall fyrir Rauða herinn en svipuð fólskuverk í Prag, Búdapest, Tíblisi og Vilnius, því að fórnardýrin voru ekki Tékkar, Ungverjar, Georgíumenn eða Litháar.
Þegar Rauða hernum var sigað á sína eigin móðurþjóð, Rússa, slitnaði síðasta haldreipi hugmyndafræðinnar. Enda hefur komið í ljós, að valdaránsnefndin gat ekki reitt sig á stuðning einstakra hermanna og yfirmanna þeirra og kunni ekki að mæta slíkum vanda.
En það má hafa til marks um, að Sovétríkin hafa fetað götuna fram til mannlegrar hugsunar, að hvorki var sjálfkrafa hægt að siga hermönnum á almenning né gátu allir valdaránsmenn haldið heilsu sinni og samstöðu, þegar þeir sáu fram á, að blóð mundi renna.
Valdaránsmenn eru ekki greindir menn í venjulegum skilningi. Þeir komust í valdastöður sínar út á að geta potað sér áfram innan í kerfinu. Þeir eru árangursríkir kerfiskarlar, sem eru gagnslitlir, þegar þeir koma úr kerfinu út í næðing og sviptivinda byltingarinnar.
Valdaránsmenn voru að gæta hagsmuna forréttindastéttar, sem hefur lifað í fílabeinsturni og getur ekki mætt nýjum aðstæðum. Þeir voru einangraðir frá umhverfi sínu og klúðruðu því hallarbyltingunni, sem þeim virtist í upphafi vera einföld lausn á vandanum.
Í valdaráninu fólust fjörbrot deyjandi yfirstéttar, sem hefur reynzt óhæf um að varðveita fyrri lífskjör landsmanna. Í byltingarnefndinni voru einmitt þeir menn, sem hafa stjórnað efnahag landsins á síðustu árum og hafa misst hungurvofuna inn á gafl til almennings.
Nómenklatúran í Sovétríkjunum getur ekki sakað lýðræðisinna eða hagfræðinga um ófarirnar í efnahagsmálum. Hún verður sjálf að svara til saka, því að það er hún sem hefur verið við völd og það er hún, sem var að reyna að varðveita þau með hallarbyltingu.
Almenningur í Sovétríkjunum gat spurt tveggja spurninga. Annars vegar, hvað yrði um lýðræðisþróunina. Hins vegar, hvort valdaránsnefndin mundi skaffa. Og það var flestum ljóst, að henni mundi hvorki fylgja frelsi né brauð, heldur ánauð og hungur í senn.
Hallarbylting tekst því aðeins, að menn taki henni eins og hverju öðru hundsbiti. Hún tekst ekki, þegar andófsöfl stilla saman strengi. Þá standa byltingarmenn andspænis allt öðru vandamáli, það er að segja blóði, sem sumir þeirra vildu ekki fá á hendur sínar.
Hallarbylting harðlínumanna reyndist vera í skötulíki. Það sýnir, að ofan á vondan málstað voru þeir alls ekki færir um að standa í stórræðum á götuvígjum.
Jónas Kristjánsson
DV