Stríð er að hefjast

Punktar

Bandaríkjamenn og Bretar eru farnir að gera loftárásir á hernaðarlega mikilvæg skotmörk í Írak til þess að deyfa varnir landsins, þegar landhernaður hefst. Frá því segja Richard Norton-Taylor og Nicholas Watt í Guardian í dag. George W. Bush Bandaríkjaforseti og talsmenn hans eru hættir að verja fyrirhugað stríð og farnir að tala um, hvernig Írak verði stjórnað að stríði loknu. Frá því segir David E. Sanger í New York Times í dag. Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa ákveðið, að tilgangslaust sé að halda áfram umræðum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í meira en hálfa aðra viku í viðbót. Ef Bandaríkin og Bretland telja ólíklegt, að meirihluti fáist í ráðinu með tillögu þeirra um stríð, munu þessi ríki ekki leggja áherzlu á afgreiðslu tillögunnar, heldur fara í stríð. Frá því segir Karen DeYoung í Washington Post í dag.