Stríð er pólitísk nauðsyn

Punktar

Francis X. Clines segir í New York Times, að Karl Rove, hinn ítursnjalli og siðlausi kosningastjóri Bandaríkjaforseta, hafi ákveðið, að það verði ekki innanlandsmálin, sem fleyti George W. Bush inn í annað kjörtímabil í kosningunum árið 2004. Það verði stríðið við hryðjuverkin. Samkvæmt þessu er ástandið orðið þannig, að Bandaríkin þurfa sífellt að fara í stríð fyrir kosningar, svo að flokkur forsetans vinni þær. Sigurmyndin af forsetanum í hermannajakka um borð í flugmóðurskipinu Abraham Lincoln eftir stríðið við Írak vakti mikla lukku hjá stríðsglaðri þjóð, sem hefur gleymt, að George W. Bush vék sér undan herþjónustu í Vietnamstríðinu.