Stríð við eigin bandamenn

Punktar

Þótt stríð sé ekki hafið enn í Mesópótamíu, hefur Bandaríkjastjórn allan valdatíma núverandi forseta rekið eins konar stríð gegn bandamönnum sínum á Vesturlöndum. Það hófst með breiðsíðu fyrirlitningar á margvíslegum fjölþjóðasáttmálum, sem ráðamönnum Evrópu eru kærir, af því að þeir fela í sér sættir ólíkra sjónarmiða, allt frá Kyoto-sáttmálanum yfir í stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna. Stríðið gegn bandamönnum Bandaríkjanna hefur náð hástigi í vetur með fjölbreyttum hótunum og ógnunum um pólitískt og efnahagslegt ofbeldi, skætingi í garð Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og persónulegum árásum á alla þá ráðamenn í Evrópu, sem lúta ekki vilja Bandaríkjastjórnar í einu og öllu. Það er engin furða, þótt kjósendur um alla Evrópu segi í skoðanakönnunum, að Bandaríkin séu ekki bara mesta, heldur langmesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir.