Stríðið er ekki um Kúvæt

Greinar

Tvisvar hefur framvinda stríðsins við Persaflóa ógnað tökum bandamanna á sjálfri framvindunni. Í fyrra skiptið gerðist það, þegar eldflaugar Saddams Hussein hittu ísraelskar borgir. Þá var um tíma hætta á, að Ísrael flæktist inn í stríðið, en því tókst að afstýra.

Í síðara skiptið reyndi Gorbatsjov Sovétforseti að leika tveimur skjöldum með því að lýsa almennum stuðningi við markmið bandamanna, en búa um leið til lausn, sem hefði þýtt, að Sovétríkin hefðu Saddam Hussein að skjólstæðingi og birgðu hann vopnum að nýju.

Þetta tókst ekki. Bandamenn höfnuðu milligöngu Gorbatsjovs á kurteisan hátt og héldu áfram ætlunarverki sínu. Hingað til hefur allt gengið í samræmi við þá kenningu, að Írakar standi ekki að baki Saddam Hussein, heldur þjóni honum af ótta og skelfingu.

Venjulegir hermenn og liðsforingjar í her Saddams Hussein hafa engar vöflur. Þeir hreinlega gefast upp um leið og þeir eru vissir um, að eftirlitsmenn harðstjórans skjóti þá ekki í bakið. Einu hermennirnir, sem verjast, eru í sérþjálfuðum lífvarðasveitum foringjans.

Úr því að bandamenn hafa komizt yfir þröskulda Ísraels og Sovétríkjanna, er mikilvægt, að þeir komist líka yfir þriðja þröskuldinn, Kúvæt. Það er að segja, að þeir líti ekki á frelsun Kúvæt sem niðurstöðu stríðsins, heldur felist hún í að hrekja Saddam Hussein frá völdum.

Stríðinu má ekki ljúka með því einu, að bandamenn nái Kúvæt á sitt vald og komi þar á skaplegu stjórnarfari. Stríðinu lýkur nefnilega ekki í raun fyrr en gengi Saddams Hussein hefur verið komið frá og efnt hefur verið til réttarhalda yfir helztu mönnum þess.

Enginn minnsti vafi er á, að Saddam Hussein og fylgismenn hans hafa framið bæði stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu, þar á meðal glæpi gegn vistkerfi mannkyns. Margir aðrir hafa að vísu framið slíka glæpi, en þetta gengi er eitt hið versta, sem sézt hefur.

Réttarhöld mundu hjálpa fólki til að átta sig á, hve hroðalegt er stjórnarfar í sumum löndum. Þau mundu líka hjálpa öðrum harðstjórum til að átta sig á, að slíkt stjórnarfar getur um síðir haft alvarlegar afleiðingar fyrir harðstjórann sjálfan og sérsveitir hans.

Þetta stríð hefur kostað mikið og á eftir að kosta mikið enn. Mikilvægt er, að sem mest fáist fyrir fórnirnar, sem færðar hafa verið. Sigurinn yfir Saddam Hussein ber að nota til að koma á betri venjum í samskiptum þjóða og í samskiptum yfirvalda við borgarana.

Samkvæmt stofnskrá og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru til reglur um lýðréttindi, sem ekki eiga að þurfa að vera sérstaklega vestrænar, heldur hafa algilt innihald. Þessar reglur mættu gjarna síast í gegn í heimi íslams og í þriðja heiminum.

Á velgengnistíma Saddams Hussein var hann studdur minnihluta íslama, nema í Jórdaníu og hugsanlega í einhverjum ríkjum Norður-Afríku. Í fjölmennustu ríkjunum, svo sem Egyptalandi og Tyrklandi, var ekki nein umtalsverð andstaða gegn aðgerðum bandamanna.

Þegar kemur í ljós, að Saddam Hussein er pappírstígrisdýr, mun stuðningur við hann hjaðna meðal íslama um allan heim. Mikilvægt er að nota fall hans til að koma á framfæri því sjónarmiði, að mannréttindi og lýðréttindi henta íslömum eins og öðru fólki.

Úr því að bandamenn komust yfir þröskulda Ísraels og Sovétríkja í Persaflóastríðinu geta þeir líka komizt yfir þann þriðja, að stríðið snúist bara um Kúvæt.

Jónas Kristjánsson

DV