Styrjöld Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Afganistan hefur gengið illa, þegar þetta er ritað. Hálfs mánaðar herför hefur ekki leitt til þess, að skref næðust að þeim markmiðum, sem herstjórn Bandaríkjanna hafði sett sér, þótt það kunni að breytast á næstu dögum.
Talibanar eru enn fastir í sessi og virðast hafa full tök á yfirráðasvæði sínu, sem nær yfir níu tíundu hluta landsins. Héraðshöfðingjar og svæðisherforingjar þeirra hafa ekki lagzt á sveif með Bandaríkjunum og svokallaðir “hófsamir” Talibanar hafa ekki látið á sér kræla.
Þjóðflokkur Pashtuna er fjölmennastur í Afganistan og Pakistan. Þrátt fyrir bandalag Bandaríkjanna við hryðjuverkastjórn valdaræningja í Pakistan, hafa engir hópar Pashtuna í Afganistan slegizt í lið með Bandaríkjunum. Þeir virðast ekki hafa bilað í stuðningi við Talibana.
Ekki hafa tekizt tilraunir Bandaríkjanna til að mynda eins konar samráðastjórn með því að grafa upp aldraðan kóng á Ítalíu og gera hann að leppi sínum. Þótt þessi hópur sé af þjóðflokki Pashtuna, þar á meðal kóngurinn, hefur þeim ekki tekizt að hafa áhrif á heimamenn.
Enn sem komið er, hefur herstjórn Bandaríkjanna eingöngu getað notað heri Norðurbandalagsins, sem eru andstæðingar Talibana. Því miður eru þeir aðeins skipaðir minnihlutahópum, sem eru hataðir af Pashtunum fyrir voðaverk Norðurbandalagsins á undanförnum árum.
Bandaríska herstjórnin er alltaf að bíða eftir sókn Norðurbandalagsins í átt til höfuðborgarinnar Kabul. Þessi sókn hefur lengi látið á sér standa. Víglínur eru enn óbreyttar norður í landi, þegar þetta er ritað. Ekki einu sinni hefur fallið héraðshöfuðborgin Mazar-i-Sharif.
Norðurbandalagið er ekki félegur bandamaður. Því er stjórnað af glæpamönnum, sem bera ábyrgð á mestum hluta fíkniefnanna, sem berast til Evrópu. Spunameisturum herferðar Bandaríkjanna í Afganistan hefur ekki tekizt að draga fjöður yfir þessa alvarlegu staðreynd.
Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa farið halloka í stríðinu um sannleikann. Upplýsingar þeirra um árangur og afleiðingar loftárása hafa reynzt rangar, en upplýsingar Talibana réttar, svo sem síðar hefur verið staðfest af starfsfólki hjálparstofnana og Sameinuðu þjóðanna.
Verst er, að herstjórn Bandaríkjanna hefur fyrst vísað fréttum Talibana á bug, svo sem fréttum af árásum á íbúðahverfi og sjúkrahús, en síðan orðið að draga það til baka. Ekki er því við að búast, að menn treysti frekari fullyrðingum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.
Ekki er vitað til, að neinn liðsmaður Osama bin Ladens hafi fallið og ekki er sjáanlegt, að herstjórn Bandaríkjanna viti, hvar hann er niður kominn. Ekki er heldur vitað til, að neinn liðsmaður Talibana hafi fallið. Hins vegar hafa þúsund óbreyttir borgarar látið lífið.
Með þessu áframhaldi munu Pashtunar standa saman sem einn maður gegn herflokkum Bandaríkjamanna og óþjóðalýðnum, sem þeir hafa gert að bandamönnum sínum. Þegar þetta er ritað, eru því fremur horfur á, að vestrænn stuðningur við stríðið fari ört þverrandi.
Stærsta fórnardýr stríðs Bandaríkjanna í Afganistan er sú fullyrðing ráðamanna, að þetta sé stríð gegn hryðjuverkum. Þvert á móti hafa Bandaríkin gert bandalag við hryðjuverkamenn í Afganistan og hryðjuverkastjórnir í nágrenni Afganistan um dráp á blásaklausu fólki.
Senn fara Vesturlandabúar að álykta, að Bandaríkjastjórn sé komin í ógöngur í tilraunum sínum til að leita hefnda fyrir hryðjuverkin 11. september.
Jónas Kristjánsson
DV