Stríðið gengur vel

Greinar

Gagnsókn bandamanna við Persaflóa gengur nokkuð vel, að minnsta kosti nógu vel til sigurs. Senn má búast við hernaði á landi, ef diplómötum tekst ekki að breyta hernaðarsigri í stjórnmálaósigur. Eina alvarlega hættan í ófriðnum er, að það bresti á með ótímabærum friði.

Víða um heim er verið að reyna að fá sleginn botn í stríðið á einhvern þann hátt, að valdahópurinn í kringum Saddam Hussein haldi stöðu sinni og geti farið að undirbúa nýtt stríð gegn nágrönnum sínum. Sovétstjórnin er fremst í flokki þeirra, sem að þessu vinna.

Tareq Aziz, utanríkisráðherra Saddams Hussein, var í Kreml í gær til að ræða undankomuleiðir. Gömul og ný reynsla segir, að orð hans binda ekki hendur Saddams Hussein. Utanríkisráðherrann er valdalaus sýningargripur, sem á að slá ryki í augu útlendinga.

Það væri sterkasti leikur Saddams Hussein í skákinni að lýsa yfir skilyrðislausri brottför herja sinna frá Kúvæt. Hann getur lýst yfir sigri og farið heim. Þá vandast hlutur bandamanna, ef óargadýrið liggur enn í greni sínu og bíður næsta færis til að kúga nágranna sína.

Vandinn felst meðal annars í, að ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fjalla um, að ná megi Kúvæt úr klóm Saddams Hussein. Þær fjalla ekki um, að velta eigi honum og gengi hans úr sessi í Írak. En það er einmitt verkið, sem bandamenn mega til með að vinna.

Eftir því sem stríðið dregst á langinn, aukast friðarmöguleikar diplómata frá Sovétríkjunum og öðrum ríkjum, sem hyggjast gera sátt við Saddam Hussein eftir stríð. Þess vegna er mikilvægt, að í tæka tíð hefjist landhernaður bandamanna innan landamæra Íraks.

En herstjórar bandamanna verða að sjálfsögðu um leið að haga stríðinu á þann hátt, að hermenn bandamanna verði fyrir sem minnstu tjóni. Landhernaður leiðir til aukinnar hættu á notkun efna- og eiturvopna, nema stríðið hafi áður verið að mestu unnið úr lofti.

Hingað til hefur töfin verið í lagi. Ísrael hefur ekki verið flækt inn í stríðið og bandalagið milli Vesturlanda og íslamskra landa hefur ekki bilað. Aðeins fjórðungur fólks í íslömskum aðildarríkjum bandalagsins lýsir í skoðanakönnunum stuðningi við Saddam Hussein.

Í fyrsta skipti í hernaðarsögunni hefur loftárásum verið hagað af tillitssemi við íbúa landsins, sem árásunum er beint að. Má heita furðulegt, hversu vel bandamönnum hefur tekizt að koma í veg fyrir mannfall óbreyttra borgara í Írak. Undantekningar eru fáar.

Ekkert hefur enn komið fyrir, sem hindrar, að Vesturlönd og framfarasinnuð ríki íslams geti unnið friðinn að loknu stríði. Mestu máli skiptir, að lýðræðissinnuð öfl nái saman yfir múrinn milli vesturs og íslams og að reynt verði að koma af stað lýðræði í Írak.

Síðan verða Vesturlönd í sínum hópi að koma á fót virku eftirliti og takmörkunum á vopnasölu til harðstjóra í þriðja heiminum. Það er ófært, að Vesturlönd framleiði Frankensteina á borð við Saddam Hussein, sem síðan kostar blóðbað og morð fjár að losna við.

Þessa dagana verða herstjórar bandamanna að finna jafnvægi milli umhyggjunnar um velferð landhermanna sinna gagnvart efna- og eiturvopnum og hins hvikula almenningsálits í löndum íslams og á Vesturlöndum. Þeir þurfa fyrr en síðar að fara í stríð á landi.

Bandamenn eru núna hársbreidd frá sigri í stríðinu við Persaflóa. Mikilvægt er, að sigurinn fjari ekki út í diplómatískum millileikjum úr áhorfendapöllum.

Jónas Kristjánsson

DV