Stríðið um ströndina.

Greinar

Vegargerð í Laugarnesi hefur verið frestað eftir að náttúruverndarmenn bentu á, að eins kílómetra ströndin þar er hin eina í borgarbyggðinni, sem er að mestu með óspilltum ummerkjum náttúrunnar. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að taka tillit til þessa og færa veginn fjær ströndinni.

Þetta eru ánægjuleg viðbrögð, sem vonandi verða fordæmi öðrum sveitarstjórnum, sem þurfa að taka afstöðu til náttúruverndar í skipulagi og framkvæmdum. Hingað til hafa slík sjónarmið ekki átt upp á pallborðið hjá mörgum sveitarstjórnum, svo sem sjá má víða á Reykjavíkursvæðinu.

Fjörur eru meðal hins skoðunarverðasta í náttúrunni, enda eru þær á mótum lífsríkis hafs og lands. Jafnframt þurfa þær að sæta einna mestum ágangi mannfólksins, er sækist eftir að byggja hús sín, þorp og borgir sem næst sjávarmáli. Þetta tvennt er örðugt að sameina.

Kársnes í Kópavogi er dæmi um stórslys, þar sem náttúra strandlengjunnar hefur gersamlega mátt víkja fyrir áhuga manna á að byggja niður að sjó. Þetta nes, sem áður var fallegt, er nú aðeins hversdagslegt hverfi, þar sem fáum dettur í hug að njóta útivistar.

Á Seltjarnarnesi geisar þessi styrjöld enn. Hingað til hefur verið hægt að halda uppi vörnum fyrir strandlengjuna frá Bygggörðum á norðanverðu nesinu vestur um Gróttu og Suðurnes að Nesbala að sunnan. En því miður eru margir þeirrar skoðunar, að þarna megi byggja meira.

Slagurinn um Valhúsahæðina er forsmekkur þess, sem síðar mun verða. Valdamikill og skammsýnn bæjarstjóri reyndi að troða þar upp átján húsum, en fékk ekki nema jafntefli vegna einarðrar fyrirstöðu í bæjarstjórn, sem meira eða minna náði þvert gegnum stjórnmálaflokkana.

Þegar steinsteypuliðið snýr sér að strandlengjunni á Seltjarnarnesi, verður enn meira í húfi. Það hefur látið skipulagsarkitekta bæjarins teikna í nágrenni strandlengjunnar hringveg fyrir kappakstur óviðkomandi umferðar. Ennfremur fullt af húsum við þennan veg.

Náttúruverndarmönnum veitir ekki af að byrja strax að undirbúa varnirnar, því að sóknin verður án efa slóttug. Ef menn sofna á verðinum, munu þeir vakna upp við óbætanlegan skaða. Steinsteypuliðið er nefnilega reynslunni ríkara eftir pattið á Valhúsahæð.

Hundahald og vaxandi byggð hefur þegar stórspillt fuglalífi á ströndinni, sem teflt verður um. Áhugamenn hafa af mikilli elju megnað að hlúa að varpi æðarfugls, maríuerlu, þúfutittlings, tjalds og músarrindils í Gróttu. Á hverju vori er þetta varp í mikilli hættu.

Ekki bætir úr skák, að helzta lögregla svæðisins, krían, er á undanhaldi. Fyrir nokkrum árum hélt hún uppi grimmilegri vörzlu. Núna hefur aðsteðjandi byggð og eftirlitslítið hundahald þrengt svo að henni, að hinar fáu kríur, sem eftir eru, garga ekki einu sinni.

Ef enn verður þrengt að ströndinni vestan á Seltjarnarnesi, má búast við, að lífið verði snöggtum fábreyttara í fjörunni. Hið sama mun síðan verða uppi á teningnum á öðru nesi, Álftanesi, þar sem skipulag er skemmra á veg komið. Við blasir, að bæði þessi nes verði ný Kársnes.

Náttúruverndarmenn á öllu þessu svæði verða að taka saman höndum gegn hinu skammsýna steinsteypuliði. Sigurinn í Laugarnesi ætti að verða mönnum hvatning til að láta ekki deigan síga. Hann á að marka endalok sífelldra ósigra og upphaf nýs og betri tíma í umgengni við náttúruna.

Jónas Kristjánsson.

DV